Bréf frá Tanzaníu

Árin 1983-86 bjó ég í Tanzaníu í Afríku, ásamt þáverandi eiginmanni mínum og tveimur sonum. Fyrir nokkru síðan lét mamma mig fá fullt af bréfum sem ég og eldri strákurinn skrifuðum foreldrum mínum á meðan á dvölinni stóð. Fannst mér mjög fróðlegt og skemmtilegt að lesa þau aftur svona löngu seinna. Ég ákvað þess vegna að skrifa þau upp hér á netinu, sjálfri mér og kannski einhverjum fleirum til fróðleiks og skemmtunar.

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

Ég hef oft verið spurð: "Hvernig var að búa í Afríku?"

Kannski finnið þið eitthvað af svörunum hér. K A R I B U N I ! (Velkomin!)

Sögulok



Eftir þetta gerðist ýmislegt skemmtilegt, við fórum í aðra ferð til Nairobi og einnig til Zansibar, sem var mjög sérstök upplifun.






Úlfur á strönd á Zansibar og götumyndir frá Zansibar.
En 6. maí 1986, eftir nokkrar hremmingar til viðbótar sem reyndust okkur hjónakornum óyfirstíganlegar, fór fjölskyldan heim; við Úlfur alfarin, en Kristján hélt út aftur og dvaldist ár í viðbót í Tanzaníu.



Skildu þar með leiðir okkar Kristjáns, en hjá mér tók við að hefja nýtt líf á Íslandi, en það er önnur saga...

Hversdagslíf í Moshi

Húsið okkar á Kilimanjaro Road, Plot 5, Moshi.

Moshi 19. sept. "85
Elsku mamma og pabbi!

Þakka þér fyrir bréfið mamma það er nú orðið þó nokkuð síðan ég fékk það og tími til kominn að fara að svara. En hjá okkur skeður nú svo ósköp fátt að það getur orðið erfitt að tína eitthvað til að segja frá sem markvert gæti talist.
Okkur þótti nú heldur súrt í broti að þið skulið vera hætt við að koma í vetur, maður var hálfpartinn farinn að hlakka til að þið kæmuð, en vonandi getur orðið af því seinna.

Af okkur er allt gott að frétta, nema hvað Kristján er alltaf hálfslappur. En það getur víst tekið svona langan tíma að jafna sig eftir hepatitis, sérstaklega ef fólk fer ekki nógu vel með sig. Olof Englund, Svíi sem er kominn hingað til að vinna í Nordic Project fékk hepatitis þegar hann var í Indónesíu fyrir 4-5 árum. Hann segist hafa verið 2 ár að jafna sig alveg, en hann hafð líka farið of geyst af stað og ekki áttað sig á því hversu slappur hann var í raun og veru.
En mér finnst einkennilegt hversu misþungt þessi sjúkdómur virðist leggjast á fólk og yfirleitt held ég eru karlmenn lengur að ná sér en konur. Fer þetta kannski eitthvað eftir því hversu sterkt ónæmiskerfi líkamans er? Fær fólk með öflugar ónæmisvarnir frekar krabbamein en aðrir? GBÚ komst yfir sína lifrarbólgu að mestu á 2-3 vikum þótt greina mætti að vísu truflanir á lifrarstarfsemi mánuði seinna. En þessar bollaleggingar koma af því að ég las smágrein í Mogga (við fáum laugardags- og sunnudagsblöðin) um rannsóknir á þessu sviði og þ.á.m. meðgöngu og hvers vegna líkami konunnar hafnar ekki fóstrinu og hugsanlegt samband milli krabbameins og ónæmisvarna líkamans.
Við erum búin að fá 2 bréf frá Eysteini og tala við hann 2svar í síma. Hann virðist mjög ánægður að vera kominn aftur heim til Íslands og ferðin hafði líka gengið mjög vel. Hann verður vonandi duglegur að læra svo afi hans og amma þurfi ekkert að skifta sér af því, þá gengur þetta örugglega allt vel. Afi hans setti líka sem skilyrði fyrir því að hann kæmi til þeirra að hann yrði duglegur að læra, svo vonandi reynir hann að standa sig.
Þið hafið líklega frétt að í stað Eysteins höfum við fengið fósturdóttur Helgu Soffíu Einarsdóttur, dóttur Einars og Stínu í Arusha, en hún gengur hér virka daga í skóla, þann sama og Úlfur, International School Moshi. Þau ná svo í hana um helgar, en þetta er aðeins klukkustundar akstur. Einar keyrir þetta reyndar á styttri tíma, hann er svoddan ökufantur, enda aumingja Stína alltaf stjörf af hræðslu í bíl með honum að eigin sögn.


Úlfur skólastrákur með bekkjarfélögum og aðalkennaranum sínum.

Jæja, á morgun er föstudagur og seinasti skóladagur vikunnar, þá andar maður léttar, því ég er ekki enn orðin vön því að vakna kl. 6.30 þótt 4 vikur séu síðan skólinn byrjaði, mér finnst þetta heldur snemmt, en skólinn er frá 7.30 til 12.50. Síðan þarf Helga að fara aftur 2svar í viku frá 14.30 til 16.15. Hún er í S1, sem er sama og 7. bekkur heima, svo hún er ári á undan því hún verður ekki 13 ára fyrr en í apríl, en hún er greind og dugleg að læra.
Úlfur er kominn í tíma í hestamennsku á vegum skólans. Það finnst honum mjög spennandi, hann er búinn að fara 2svar. Helga er líka "í hestum".

Í garðinum á Kilimanjaro Road
Ég er búin að fá eina vinnukonu í viðbót, sú heitir Fríða og kann að búa til mat á tansaníska vísu sem mér finnst mjög góður matur. Ég þarf samt að kenna henni að búa til evrópska rétti líka, því Kristján verður argur þegar hann fær eintóman "Afríkanamat" marga daga í röð, en matur getur oft verið honum ótrúlega mikið hjartans mál, finnst mér, en ég er nú kannski ekki dómbær um þetta því eins þið vitið hef ég aldrei verið talin matmanneskja. Svo þegar húsbóndinn fer að nöldra um afríkanamat (eða helst áður en) fer ég í eldhúsið og bý til kjötbollur og steiktan fisk og "lasagna à la Scandinavia".
Það er nú best að hætta þessu skrifrausi að sinni. Ég bið að heilsa öllum heima og vonast eftir bréfum, þeim verður svarað, fyrr eða síðar!
Ykkar dóttir
Greta


Vinstra megin: Annar hundanna okkar ennþá hvolpur.
Hægra megin: Góðir gestir frá Tabora í heimsókn.


P.s. Kristján og Úlfur biðja að heilsa. Ég hef ekki fengið Dag enn, en hver veit?! Ég er ekki heldur búin að fá bókina en ég hlakka mikið til að lesa hana, vona bara að hún berist. Fastur liður á kvöldin hjá okkur núna: Ég les 1 kafla úr Sögunni endalausu [eftir Michael Ende]fyrir Úlf og Helgu Soffíu fyrir svefninn og erum við öll mjög spennt í sögunni. GÚ.
Útsýnið af veröndinni: Kilimanjaró í ljósaskiptunum.

Meiri hremmingar

Í mars 1985 var heilsufar Kristjáns orðið svo ískyggilegt að hann var sendur til Kaupmannahafnar á sjúkrahús, þar sem hann undirgekkst alls kyns rannsóknir. Á meðan var ég ein með strákan í litla húsinu við Arusha road í Moshi (með félagsskap askaríanna og einhverra fleiri Tansana, sem leist ekki vel á að útlend kona kúldraðist þarna ein með veikan mann í Evrópu og reyndu að vera vingjarnlegir, en lítið fór fyrir hugulsemi dansks projectsfólks í bænum) og fór minna ferða á Project-bílnum, því bíllinn okkar stóð klesstur og óökufær inni í bílskúr; gekk hægt að fá gert við hann. Þegar engar niðurstöður voru komnar úr rannsóknunum eftir mánuð treysti ég mér ekki lengur að vera þarna ein með drengina í hálfgerðu reiðileysi og flaug til Kristjáns í Kaupmannahöfn. Hann var útskrifður af sjúkrahúsi þar án greiningar og þaðan fórum við svo til Reykjavíkur, þar sem Kristján lagðist aftur á sjúkrahús, nú á Landspítalann. Þar kom loksins í ljós, af öllum stöðum, þó svo hann væri búinn að liggja á deild úti fyrir "tropical diseases" í Köben, að hann var búinn að ganga lengi með amöbur innvortis, sem samnýttu með honum alla fæðu sem hann lét ofan í sig og tóku hana reyndar einfaldlega frá honum. Þannig að loksins kom upp úr dúrnum að það sem var að hrjá hann var einfaldlega vannæring, fyrirbæri sem er viðloðandi í Afríkulöndum, þar sem sníkjulíf örvera í innyflum manna er mjög algengt. En undarlegt að þetta skyldi ekki hafa uppgötvast fyrr eða einhver gáfumaður úr læknastétt hafa látið sér detta þetta í hug, í stað þess að leita að einhverjum flóknari sjúkdómum.
Eftir að þetta greindist og tókst að útrýma amböbuskröttunum innvortist fór karlinn að braggast og taka framförum, þannig að í júlí var hann orðinn nokkru brattari og til í að taka til við slaginn í suðrinu. Og halda áfram að kneyfa sinn bjór...
En því miður höfðu þessi vandræði öll tekið sinn toll og reynt talsvert á hjónabandið, sem skal viðurkennt að hafði oft áður staðið á brauðfótum, jafnvel og sérstaklega árin fyrir Afríkuför. Svo nú leið að lokum Afríkudvalar minnar...
Því við þetta bættist líka að Eysteinn dvaldi ekki með okkur þennan síðasta vetur úti. Alltaf síðan hann fékk lifrarbólguna hafði honum ekki liðið nógu vel í Tanzaníu og virtist ekki finna sig þar nógu vel. Við ætluðum samt að hafa hann með okkur út aftur þarna um mitt sumar, en þá kom upp úr dúrnum að hann hafði hugsað sér að verða eftir heima. En það var orðið of seint að ráðgera slíkt í forstofunni hjá afa hans og ömmu á Húsavík þar sem hann fékk algjört kast, grét og spyrnti fótum í dyrastafi þegar halda átti út á flugvöll. En þar sem hann hafði ekki stunið neinu upp um þetta fyrr varð það úr að hann var píndur til að koma út með okkur. Þegar út var komið fór hann í verkfall, hætti bæði að borða og leika sér, fór í algjört þunglyndi og sat í sófa inni í stofu í langerma og síðskálma bláum velúr jogging galla sem hann átti og starði í gaupnir sér. Á endanum sáum við þann kost vænstan að senda hann heim til Íslands aftur, þar sem hann fékk að vera hjá afa sínum og ömmu yfir veturinn.



Moshi 16. Marz

Halló! Þakka þér fyrir bókina. Í gær var afmælið hans Úlla. Við buðum einni fjölskyldu í afmæliskaffi. Nú er pabbi í Danmörku í læknisskoðun, eins og þú áreiðanlega veist, en við vitum ekki hvenær hann kemur aftur. Hann ætlar að kaupa úr handa okkur Úlla svo við getum vitað hvað klukkan er í skólanum. Skólinn er alþjóðlegur og heitir ISM, - International School Moshi. Um daginn sáuum við leikrit þar, 10. bekkur (9. í Gagganum) léku forngríska leikritið Antígóna í nútíma stíl. Bekkjarfélagar leikendanna hlógu og flissuðu og fengu þar með allan salinn til að hlæja, þó að leikritið væri harmleikur.
Bless, Eysteinn

Lífið á Arusha Road, Moshi

Moshi 6. mars "85

Elsku mamma og pabbi!

Af okkur er allt gott að frétta að því undanskildu að Kristján hefur verið hálfslappur lengi og svo var hann að klessa bílinn um daginn (Isuzu trooper [okkar eigin bíll]). En sem betur fer meiddist enginn. Þeir voru tveir í bílnum Kristján og Eysteinn í framsæti við hliðina á honum, ekki í bílbelti og munaði engu að hann lenti með höfuðið í framrúðuna þegar Kristján keyrði á kantstein í beygju á of miklum hraða. Bíllinn er mikið skemmdur, en sem betur fer var hann kaskótryggður hjá Baltica, svo við förum vonandi ekki illa út úr þessu fjárhagslega. En ekki verður keyrt mikið í frí um páskana! Við erum nú helst að hugsa um að fljúga til Kenya og vera þar svona tæplega viku, en hér þykir sjálfsagt að nota öll frí til að skoða sig um. En nú notum við Project-bílinn til að transportera hér innanbæjar.
Hvað varðar heilsufar Kristjáns þá er hann búinn að vera slappur síðan í nóvemberlok. Læknar héldu fyrst að þetta væru eftirstöðvar af hepatitis hann hefði farið sér of geyst. En nú segja læknar hér eftir alls kyns blóð- og úrgangsprófanir að hann sé orðinn algóður af hepatitis. Þetta sé eitthvað annað, en hvað vita þeir ekki, e.t.v. einhvers konar infection. En mér virðist nú samt hann vera mun hressari nú seinustu daga en hann var um það leyti sem við fluttum, svo vonandi fer heilsufarið að verða gott. Hann þarf þó að keyra á fund til Nairobi sem hefur verið boðaður 25. mars og kvíðir fyrir því ef heilsan verður ekki komin í lag.
Ég þakka ykkur kærlega fyrir bréfin; og pakkann til Úlfs, hann verður örugglega kátur að fá bókina 15. mars, hann hlakkar þau býsn til afmælisins og að verða 7 ára. Ég held að hann sé búinn að teja dagana síðan 26. des. þ.e. á Eysteins bróður afmæli.
- Mér virðast drengirnir hinir ánægðustu í skólanum,International School Moshi, líka Eysteinn, sem er mér mikið feginsefni, því þá á þetta örugglega eftir að ganga vel (skólagangan) ef hann "finnur sig" á staðnum. Með Úlf er þetta minna spursmál, hann er ekki nema 5 mínútur að eignast nýja vini og hefur líka mjög gaman af því að læra. Ég held að hann sé alveg að verða læs, hann alla vega les og skrifar allt það sem hann ætlar sér!
Húsið sem við erum í núna hér er ágætt en helst til lítið og þröngt, sérstaklega eldhúsið sem er bara smákompa. (En við fáum annað hús annað hvort í lok maí eða 1. júlí eftir því hvaða hús við tökum). Stofuveggirnir og reyndar svefnherb. okkar Kristjáns og eldhúsið lika eru BLEIKIR, en mér til nokkurs áhyggjuefnis þá er ég farin að kunna því "ekki illa" (þó ekki vel). En hvernig verður litasmekkurinn orðinn eftir dvölina hér, algjörlega afrikaniseraður? (bleikt, sægrænt, gult, grátt ljósblátt er algengast í húsamálun hér!).
Við erum búin að ráða okkur "garðstrák", hann er nautheimskur greyið og fekar latur sýnist mér. Um daginn bað hann Kristján um að kenna sér á bíl og síðan ætlar hann að fá bílinn í vinnulaun, þá má hann vinna hjá okkur nokkuð mörg ár, því kaup hér í landi er ekki hátt. Síðan hefur hann sagt okkur að pósta handa sér "prize" (present) þegar við förum til Evrópu aftur (þetta var 3 dögum eftir að hann var ráðinn!). Það má vera annað hvort myndavél, eða útvarps og kasettutæki, and don´t forget. And also to ask bwana to buy me shoesi and clothes, don´t forget.
Við höfum ekki ráðið vinnukonu enn, ég er þó farin að þrá það þegar ég stend kófsveitt í keng yfir baðkarinu að þvo þvottinn. Hér er mun heitara en í Tabora, svo maður svitnar mikið og þarf að skifta oft um föt og rúmföt, og einhvern veginn skitnar hér meira en í British Compound í Tabora sem e.t.v. skýrist af því að við búum sem stendur við mestu umferðargötu í Moshi sem er Arusha road og svo er jarðvegur hér dekkri (brúnn) en í Tabora (rauð- og gráleitur).
Í hverfinu hér fyrir neðan er víst mikið um þjófapakk svo við höfum garðhliðið læst alla daga og nætur. Á nóttunni höfum við 2 varðmenn (askari) sem skiftast á um að halda vörð 3 nætur í
senn hvor.
Við húsið hér er nokkuð stór garður með allskyns fallegum gróðri rósum o.fl. sem ég kann ekki að nefna. Eitt kann ég þó að nefna uppá íslensku sem er stór runni af "Hawairós" alþakinn blómum og knúppum, og fleiri plöntur sér maður hér í görðum sem aðeins finnast sem stofublóm heima á Íslandi.
Nú fer bráðum að dimma, en þetta er al-fallegasti tíminn hér í Afríku finnst mér, í ljósaskiftunum. Ég sit hér úti á smáverönd framan við húsið við skriftir, klukkan er tæplega 7. Askarinn Alexander var að mæta til vinnu og bíður brosmildur gott kvöld, þetta er geðþekkur ungur maður, við sofum vel inni í húsinu vitandi af honum á vakt. Kristján var að keyra af stað og Eysteinn með honum að ná í Úlf til Helle vinkonu sinnar, hún er 5 ára, dönsk og flytur heim í maí. Ég slæ þá botn í bréfið að sinni og fer inn að ná í umslag. Bestu kveðjur til allra heima.
Ykkar dóttir Greta.

Tabora 23. jan ´85
Halló. Þakka ykkur fyrir bílinn þyrluna og það allt. Við pöntuðum allt mögulegt úr Justa, ísduft, gervirjóma jarðarber sodastream og stórt Alwa tvöfalt kassettutæki.
Um daginn tæmdum við laugina með handafli, við hentum fötum oní og drógum þæær upp, skrúbbuðum hana og bættum, fylltum hana aftur og létum efni, aluminium sulfat í með þeim afleiðingum að allur skíturinn botnféll þá ryksuguðum við hana og nú er hún blá og fín. nýja heimilisfangið er box 664 Moshi.
Bless, Bless, Eysteinn

Sundlaugarþvottur og flutningur í bígerð


Tabora 17. jan. "85
Elsku mamma og pabbi.

Það var gaman að heyra aðeins í ykkur í símann yfir hátíðarnar.
Nú fer að skýrast með fluting til Moshi. Við erum trúlega búin að fá hús þar frá 1. feb. en það er eftir að samþykkja það hjá yfirmönnum í Dar og Dodoma. En Kristján fór í dag keyrandi til Dar á fund og ræðir þá þetta mál í leiðinni. Svo ég er að hugsa um að byrja að fara að pakka því hér er lítið um að vera þessa dagana og hálfleiðinlegt. Þó er strax munur að laugin komst aftur í gang í dag búið að þvo hana og hreinsa en síðan í nóvember (eða fyrr) hefur vantað klór og hreinsiefni til að halda henni í lagi svo hún var orðin algjör drullupollur. Svo við Úlfur erum búin að fara í sund í dag, ásamt Lenu litlu, sem er dönsk stelpa sem býr hér.
Það verður gaman að fá ykkur í heimsókn þegar við verðum flutt. Það er mjög fallegt í Moshi, mun meira "landslag" en hér í Tabora þar sem allt er flatt en í Moshi sést Kilimanajaro alls staðar að. Þaðan er líka stutt að fara í hina ýmsu þjóðgarða til að sjá dýralíf. Eins erum við mjög fegin að strákarnir komast loks aftur í "alvöruskóla" þótt þeir séu furðu duglegir að læra hér heima greyin.
Ég ætla þá ekki að hafa þetta mikið lengra, ég er ekki í miklu skriftarstuði núna en langaði samt að senda frá mér lífsmark og lofa ykkur að vita hvað er helst að gerast.
Bestu kveðjur til allra heima og vona að öllum líði vel ungum sem öldnum.
Bless. Ykkar dóttir
Greta

Tabora 3. des. 84
Halló. mamma hefur byrjað jólabaksturinn. Kisubörnunum Felixinu og systrum hennar líður vel, þær eru farnar að komast uppúr kassanum og eingin, ekki einu sinni mamma þeira getur fengið þær til að vera þar. inní bæ hefur opnað sjoppa þar sem fæst ís, djús, poppcorn, Brauð, kjúklingar og franskar.
Bless, Bless Eysteinn

Rólegheit í Tabora


Tabora 27. nóv.

Elsku mamma og pabbi.

Ástarþakkir fyrir þitt langa og fróðlega bréf pápi minn. Af okkur er allt gott að frétta. Nú hefur verið ákveðið að við flytjum til Moshi, en við vitum ekki ennþá hvort það verða 1 eða 2 ár. En þegar við verðum flutt þangað verður upplagt fyrir ykkur að heimsækja okkur þangað. Þar er góður skóli fyrir strákana svo þetta verður á allan hátt betra. Við förum væntanlega til Moshi í 2 vikur í desember (það er einhver planlegging ssem þeir vilja að Kristján taki þátt í) en við flytjum ekki fyrr en í janúar eða þegar tekst að útvega hús fyrir okkur. Síðan langar okkur að fara eitthvað í frí frá Moshi en við höfum ekki ákveðið hvert, þ.e. eftir þessar 2 vikur.
Annars gengur allt vel hér. Kristján er nýbúinn að vera á næstum mánaðar ferðalagi til Dar es S., Tanga og Dodoma, hann var að gera könnun fyrir Danida, hann var hálf þreyttur og slæptur eftir allt þetta. Við buðum samt dönskum hjónum með 1 stelpu sem bjuggu á Tabora Hotel að búa hjá okkur nokkra daga, því það Hótel er sérlega óyndislegur staður. Þau voru hér í 4 daga en þá fengu þau hús hér í compoundinu. Hann er bæjarverkfræðingur hér í Tabora, en hún er socionom að mennt, en verður "bara" húsmóðir hér; mjög ágætt fólk.
Ætli ég hafi þetta þá lengra að sinni.
Bestu kveðjur til allra heima
Bless. Ykkar dóttir
Greta

Tabora 26. nóv
Halló, nú er Tabora bakery farið að baka ágætis brauð á fullu. nágrannakisan er búin að eiga Börn en nú eru Gavin og Sarah flutt svo við leikum við kettlingana og fóðrum mömmuna
kettlingarnir eru fjórir og heita: simba, ljón, safi, hrein, Grafu, skítug og svo felix endurfæddur, felixína og auðvitað fáum við hana ef pabbi samþykkir annars fær Lena hana. allir hinir eru pantaðir
Bless, Bless, Eysteinn

Aftur í Tabora...


Tabora 17. september

Elsku mamma og pabbi.

Þá erum við nú aftur hingað komin heilu og höldnu. Ferðin gekk á allan hátt vel. Í Kaupm.höfn fórum við á 2 aðalstaðina, þ.e. Magasin de Nord og Tivoli, einnig fórum við í gönguferð eftir Strikinu og borðuðum á ítölskum pizzustað við Ráðhústorgið þar sem Eysteinn fékk bestu pizzu sem hann hefur smakkað og ætlar hann sko þangað aftur þegar hann á næst leið um borgina. En hálf þótti okkur fullorðna fólkinu "púkó" að drekka Coca Cola með ekta ítalskri pizzu en ekki rauðvín [lifrarbólgan!].
Við bjuggum á hóteli nálægt miðborginni þessar 2 nætur, þetta var eiginleg "pensionat" frekar en hótel, ódýrt en gott. Við fengum 1 stórt herberi fyrir okkur 4, ekki seldur matur, nema morgunmatur borinn á herbergin.
Í Dar es Salaam er ekkert mjög heitt núna, fullt eins heitt hér í Tabora. Víð stoppuðum í Dar í tæplega viku hjá Einari og Stínu áður en við fórum "heim" til Tabora. Hér er allt í besta gengi nema hvað lítið gengur með kaupfélagið, þar eru ævinlega ótal ljón á veginum. Mwumvoa er farin að vinna hjá okkur "fulltime" því Nick er fluttur til Iringa að vinna þar.
Strákarnir eru byrjaðir í "mömmuskóla" og gengur bara vel, þó stundum vilji verða dálítill hasar, í morgun fengu þeir a.m.k. "afleit" í hegðun hjá kennaranum, en annars hafa þeir verið furðu stilltir enn sem komið er.
Kristján fór í morgun til Dodoma til að sitja þar fund. Sem stendur eru litlar líkur á að við fáum framlengingu hér í Tanzaníu, fyrir dyrum standa gagngerar breytingar á verkefninu og sennilegt að sá mannskapur sem haldið verður áfram hér verði allt Danir (þ.e. klíka), síðan verði bætt við mönnum úr öðrum atvinnugreinum sem lúta meira að jarðrækt og iðnaði. Svo sennilega komum við heim alkomin næsta sumar, nema Kristján sæki um í e-hv. öðru verkefni, sem hann ætlar að athuga möguleika á og þá helst hjá S.Þ. En svo ætlar hann líka að skrifa Hampiðjunni og Álafoss og athuga möguleika á starfi þar.
Damson var voða ánægður með jakkafötin af pabba, við gáfum honum líka nýjar gallabuxur og skyrtu og spariskyrtu af Úlfi E. sem ekki þótti nógu smart á Íslandi. Alla vega sagði hann við mig að hann liti á Kritján sem föður sinn og sig sem son/barn hans (he is to me like father) og sennilega myndi hann bara deyja (eða fara að gráta? die/cry) þegar við færum aftur til Íslands. Kristján varð nú hálf kindarlegur í framan þegar ég sagði honum frá þessu, fannst þetta víst nokkuð fullorðinn sonur (hann er eitthvað rúmlega tvítugur).
Jæja, nú ætla ég samkvæmt góðri tansanískri hefða að telja upp hvað þig megið kaupa handa okkur í Evrópu; hér kemur listinn:

1. 2ja manna kaffikanna eins og þið eigið (jólagjöf?)
2. Drykkjarrör 1 pk.
3. Brjóstahaldara, hvítan
4. 1 stk. kínverskur penni (fæst í "Blöð og rusl" á Akureyri)
5. 1 tb. UHU-lím.

Þá man ég nú ekki eftir fleiru.

Ég man nú heldur ekki eftir fleiri fréttum í bili. Bestu kveðjur til allra heima.
Ykkar dóttir
Greta

Eysteinn biður afa að senda spritttöflur fyrir gufuvélina ef þær fást.

Hremmingar

Dvölin á Íslandi þetta sumar reyndist verða þó nokkuð öðru vísi en við var búist. Því á ferðalaginu um páskana til Kenya hafði okku öllum nema Úlfi tekist að krækja okkur í lifrarbólgu, hepatitis af A-týpu, sem smitast um munn, sem sé sannkölluð skítapest! Ég veit ekki hvar þetta gerðist, en hef grunsemdir um te sem við drukkum á leið okkar frá Dodoma til Tabora.
Nú en, ég veiktist fyrst og vægilega, meðan við vorum ennþá í Tabora. Lá í viku með kviðverki og varð svona smart gulleit, hægðir hvítar og pissið eins og koníak á litinn, en varð ekkert svakalega veik og tók þetta út svona eins og hvert annað ungabarn. En það er ástæðan fyrir að Tansanir sjálfir veikjast ekki svo mjög af þessu, að þeir fá þetta yfirleitt sem smábörn og þá veikjast þeir ekki svo mikið, lifrarbólga leggst þyngra á fullorðið fólk.
En eftir að við komum svo heim í júní þá veiktist Kristján og fór á spítala í Reykjavík, lá á Landspítalanum hundveikur og gulur. Og svo Eysteinn þegar við vorum komin norður á Húsavík og fór aumingjans strákurinn frekar illa út úr þessum veikindum, líkamlega varð hann mjög slappur en mest andlega, því hann fékk upp úr þessu frekar mikið antipat á Afríku og öllu þar.

Kenyaferð og meira um flutninga

Tabora 15. maí "84
Elsku mamma og pabbi.

Ég ætla að byrja á að þakka þér fyrir bréfið mamma sem ég fékk núna í byrjun maí og allar blaðaúrklippurnar. Póstsamgöngur eru nú að komast í lag hér því Air Tanzania er farið að fljúga hingað aftur.
Það var gaman að heyra að allt hefði gengið vel hjá Rögnu, Eva var búin að skrifa mér að þar væri fjölgunar von. Það var líka gaman fyrir hana að fá strák, fyrst hún á nú tvær stelpur fyrir og að hann skuli vera svona hraustur og frískur.
Við erum nú búin að gera víðreist í apríl. 5. apríl lögðum við af stað til Dar es Salaam gistum í Dodoma eina nótt og fórum svo til Kristínar og Einars Gústafssonar, hinna Íslendinganna sem eru hér, en það er búið að flytja þau til Dar. 8. apríl keyrðu þeir (karlmennirnir) svo til Arusha á viku ráðstefnu en ég og strákarnir dvöldumst í góðu yfirlæti hjá Kristínu. Þau eiga 2 krakka, Helgu Soffíu 11 ára og Einar 8 ára svo nú var aldeilis hægt að leika sér. Kristján og Einar komu svo aftur frá Arusha 14. apríl og 18. apríl lögðum við svo öll af stað til Kenya, gistum eina nótt í Arusha og keyrðum svo til Nairobi daginn eftir. Vorum þar til 26. Keyrðum sömu leið til baka, komum til Dar seint að kvöldi 27. Síðan lögðum við af stað til Tabora 1. maí komum heim 2. maí. Alls eru þetta 4000 km(fyrir utan ferð Einars og Kristjáns).

Það var dálítið skrítið að koma til Nairobi frá Tanzaníu, þar eru allar búðir troðfullar af alls kyns varningi, rétt eins og á Vesturlöndum og mikill stórborgarbragur á öllu, en í Kenya er allt annað hagkerfi við lýði en hér og einkaframtakið fær að njóta sín. Þó er Kenya þróunarland og mikil fátækt og skortur fyrirfinnst þar þó þess sjáist ekki merki í miðborg Nairobi. Og þó, þar eru víða ömurlegir betlarar og svo svikahrappar sem reyna að plata peninga út úr ríkum ferðamönnum með alls kyns raunasögum. Eins er fullt af götusölum með alls kyns "túrista"varning og þeir eru margir ákaflega ágengir og elta mann jafnvel langar leiðir. Þessir hlutir eru meira áberandi í Nairobi en í Dar es Salaam og fylgir auðvitað túrismanum.
Í Nairobi fór ég svo í "eftirlit" á Nairobi Hospital sem þykir mjög góður (t.d. var íslensk kona sem ég hitti að fara þar í móðurlífsaðgerð helgina eftir að við fórum heim aftur). Ég var að vísu búin að fara í skoðun hér [í Tabora] í mars, en hún var tæplega nógu áreiðanleg. Læknirinn sem ég hitti í Nairobi sagði þegar hann sá lungnamyndina frá Tabora:"This is a horrible x-ray!" En þarna fékk ég sem sagt góða skoðun og allt var í lagi. Það eina sem þeir gátu ekki gert var beinaskann, en Kjartan telur víst ráðlegt að láta gera það innan árs frá því að sjúkdómurinn greindist. Þess vegna hef ég hugsað mér að koma heim í byrjun júlí, ég fæ ferðir fyrir mig og strákana borgaðar vegna þess að ekki er hægt að gera þetta hér, af Baltica, danska tryggingafélaginu. Kristján ætlar síðan að reyna að finna sér ódýrt far til Kaupin (sennilega Aeroflot) og koma líka heim í ca. 2 vikur en ég hef nú hugsað mér að stoppa eitthvað lengur með strákana fyrst við verðum komin.
Hvernig er með ykkur og plön fyrir sumarið, verðið þið ekki eitthvað heima í sumar?
Einu var ég næstum búin að gleyma að segja ykkur frá: Á ráðstefnunni í Arusha var ákveðið að flytja okkur á annan stað, en ennþá hefur ekki verið ákveðið hvert en það verður gert núna fyrir lok mánaðarins. En við settum það skilyrði að við yrðum aðeins sett á stað þar sem væri skóli fyrir strákana, enda á ekki að vera neinn vandi fyrir DANIDA að raða þannig á staðina að barnafólk sé þar sem skólar eru. En þeir staðir sem til greina koma eru Dar es Salaam, Tanga, Moshi, Arusha, Mwanza. Það á að leggja niður aðstoð við minni staði og einbeita sér að stærri stöðunum, hafa fleiri menn á hverjum stað sem hafa samvinnu en það virðist vænlegra til árangurs en að setja menn niður einn og einn á smástaði. En sennilega flytjum við þá einhvern tíma í júní. Við hlökkum öll frekar til, því þótt Tabora sé ágætur staður þá er hér heldur fábreytilegt (svona e.k. Þórshöfn á Langanesi).
Ég læt þetta þá nægja að sinni. Vona að öllum líði vel heima og bestu kveðjur til allra, afmæliskveðjur til Evu.
Verið þið blessuð og sæl.
Ykkar dóttir
Greta

Tabora 17. mars

Þakka ykkur fyrir gufuvélina sem ég fékk í gær. ég leik mér oft að henni svo spritttöflurnar verða fljótt búnar, viljið þið senda mér fleiri. allt innihaldið var í pakkanum. Bless, Bless.
Eysteinn

Flutningsspekúlasjónir

Tabora 19. mars "84
Elsku mamma og pabbi.

Ég ætla að byrja á því að þakka þér fyrir bréfið þitt frá 20. janúar mamma, en ég fékk það 12. mars, svo það er heldur betur búið að vera lengi á leiðinni. Pakkinn til strákanna kom 16. mars daginn eftir afmæli Úlfs, þeir voru auðvitað mjög kátir með gjafirnar og sælgætið og við Kristján að fá blöðin. Daginn eftir kom svo bréf frá Evu dagsett 10. febrúar svo það hefur ekki verið eins lengi á leiðinni og þitt bréf en nógu lengi samt. Þetta stafar sennilega að einhverju leyti af því að það hefur legið niðri hingað allt flug frá því í janúar, Air Tanzania neitar að lenda hér nema flugvöllurinn hér verði lagaður, svo nú sitja þeir sem hafa með málin að gera með hendur í skauti og bíða eftir kraftaverki eða maður gæti ímyndað sér það - Pósturinn kemur með lestinni.

Nú er allt útlit fyrir að við verðum flutt héðan frá Tabora til Moshi og eru það ekki slæm skifti. Ástæðan er sú að háttsettir þingmenn Taborahéraðs lýstu frati á allar ráðagerðir sem Kristján og samstarfsmaður hans Harry Mchome höfðu uppi um kaupfélagsstofnun hér svo nú telja DANIDA-menn ráðlegast að færa hann á annan stað þ.e. til Moshi,sem ætti að vera álitlegra þar sem kaupfélög hafa verið þekkt þar nokkuð lengi. Þetta væri líka mjög gott upp á skólagöngu strákann, þá gætu þeir báðir farið í Moshi International School. Sem stendur kemur hingað kínversk-frönsk-tansanísk (pabbinn er Kínverji fæddur í Tanzaníu mamman er frönsk en uppalin í Kenya) stúlka á morgnana og kennir þeim reikning og ensku í tvo tíma. Það gengur vel svo langt sem það nær, Eysteinn reiknar þó hjá henni sem hann gerði ekki hjá okkur Kristjáni. Svo gluggar hann aðeins í landafræði, Íslandsspgu og náttúrufræði. Gætir þú kannski beðið Guðmund frænda að senda mér þau próf sem 11 ára krakkar hafa tekið í vetur í B.A. [Barnaskóla Akureyrar] mamma?
Það verður víst ákveðið mjög fljótlega hvort af þessu verður, svo það gæti farið svo að við flyttum ca. í maí. Í Moshi væri líka mun auðveldara að heimsækja okkur því þangað er flogið beint frá Evrópu (þó ekki SAS, en KLM (hollenskt) Sabina (belgískt) og e.t.v. Swissair fljúga þangad t.d. en það er nú allt hægt að finna út) og svo er alla vega malbikaður vegur til Dar ef þið flygjuð þangað.
Við leggjum af stað ca. 6. apríl til Mwanza, þar hittum við Ritvu og Hannu Teiskonen og keyrum með þeim gegnum Serengeti til Arusha. Þar er "workshop" eða ráðstefna í viku, svo förum við til Kenya strax á eftir og verðum þar um páskana, síðan heim aftur. Ég læt þetta þá duga í bili, kem þessu á mann sem er að fara heim til Englands. Verið þið svo blessuð og sæl.
Ykkar dóttir
Greta

P.s. Við vitum ekki með homeleave ennþá en ég býst við að við reynum að koma heim hvort sem við fáum það greitt eða ekii, við yrðum þá að reyna að finna ódýrustu leiðina.

Sögulegt ferðalag til Mwanza



Tabora 24. feb. "84

Elsku mamma og pabbi.

Þá erum við búin að fara til Mwanza. Það var mjög gaman þó ekki færi allt samkvæmt áætlun (en við því er alltaf að búast hér hvort sem er). Við keyrðum til Mwanza á Land-Rover s.l. fimmtudag. 60 km utan við Mwanza heyrðum við skrítið hljóð í bílnum og Kristján hægði ferðina. eins gott, því augnabliki síðar hoppaði vinstra afturhjólið fram úr okkur með gírskafti og öllu, þvert yfir veginn og út í buskann en bíllinn sunkaðist auðvitað í götuna. Fljótlega dreif þarna að svertingja sem höfðu séð þetta og eins stoppaði fljótlega vörubíll sem við vorun nýbúin að fara fram úr. Þeir fóru strax að reyna að gera við. Síðan stoppuðu þarna 1 Hollendingur + 1 Belgi á leið frá Mwanza til Shinyanga. Þeim tókst að koma hjólinu á svo við gátum keyrt til Mwanza á 40 km hraða bremsulaus. Þangað komum við kl. 10 um kvöldið. Þar voru öll almennileg hótel full svo við urðum að gista á heldur ömurlegu hóteli sem heitir Hotel Victoria, en okkur var lofað gistingu á öðru hóteli strax daginn eftir, við vorum svikin um það svo við urðum að gista aftur á Hotel Victoria. Þriðju nóttina fengum við svo gistingu hjá finnskum hjónum sem eru í Mwanza, en þar var allt fullt af fólki hinar næturnar, en það var nú farið. Fjórðu nóttina sváfum við svo í lest frá Mwanza til Tabora í svefnvagni. Fórum kl. 9 um kvöldið og vorum komin kl. 7 um morguninn.
Það er mjög fallegt í Mwanza við Victoríuvatnið, háir klettar og fjöll og svo vatnið sjálft. Annan fundardaginn fóru konur og börn í siglingu út í eyju þarna rétt hjá þar sem er e.k. dýragarður, þar eru m.a. gíraffar, gnýr, 1 ljón, páfuglar, api og flóðhestar. Seinasta daginn í Mwanza fórum við svo með Hannu og Ritvu og þeirra krökkum á safn utan við bæinn sem heitir Sukumu-safn og er e.k. Byggðasafn með gömlum munum úr sögu Afríku, auk þess er þarna kirkja, leirbrennsluverkstæði og lítil trévinnustofa ásamt sölubúð fyrir ferðamenn. Það stóð yfir messa meðan við vorum þarna, við stóðum úti á tröppum og hlustuðum á sönginn sem er mjög frábrugðinn íslenskum kirkjusöng og "æðislega flottur".
Þessa vikuna hefur verið meira og minna rafmagnslaust hér í Tabora, því það gleymdist nefnilega að panta diesel á rafstöðina, við höfum fengið rafmagn ca. 2 klst. á kvöldin.
Í byrjun apríl á svo að vera ráðstefna fyrir allt Projectið í Arusha og í tengslum við það myndum við sennilega fara í frí til Kenya og þá fer ég í rannsókn í Nairobi.
Ég er nú að verða dálítið langeygð eftir pósti frá ykkur ég hef ekkert fengið síðan í byrjun janúar, ég vonast nú eftir bréfi fljótlega.
Vona svo að allir hafi það gott heima og við biðjum öll kærlega að heilsa vinum og vandamönnum. Verið þið blessuð og sæl.
Ykkar dóttir
Greta

Af matargerð

Tabora 9. febrúar
Elsku mamma og pabbi.

Af okkur er allt gott að frétta. Við höfum það öll mjög gott. Það er helst að hrjái okkur póst- og fréttaleysi frá Íslandi. Við höfum fengið 4 bréf það sem af er árinu. Í öllum er tíundað óveðrið sem kom eftir áramótin, Eysteinn og Dudda sendu okkur nokkur dagblöð (og Andrésblöð!) þar sem mest kom okkur á óvart hið sorglega andlát Dorriet Kavannah [var gift Kristjáni Jóhanssyni, tenór].
- Hér hafa rigningar mikið minnkað og rignir þá helst á nóttunni, óspart farið í laugina og sólað sig þegar heiðskýrt er, og svo reyni ég nú líka að synda dálítið til þess að fá hreyfingu og strákarnir busla af hjartans lyst svo gusurnar ganga yfir mann flatmagandi á bakkanum.
Við förum sennilega öll til Mwanza í næstu viku í 5-6 daga. Það á að vera fundur þar fyrir Nordic-Project starfsmenn í Norður- og Vestur-Tanzaníu, svo þarna verður fullt af fólki sem ég hef ekki séð síðan á námskeiðinu í Danmörku. Það verður gaman að hitta það aftur og auk þess að sjá meira af landinu en það er víst mjög fallegt þarna.
S.l. föstudag komu í heimsókn til mín tvær indverskar vinkonur mínar (eiginkona og systir eiganda verkstæðisins þar sem Kristján fær gert við bílinn). Við vorum búin að fara heim til þeirra í mat í vikunni áður. Á föstudaginn kom þær kl. 10.30 með fullt af matvöru með sér, ég lagði svo til það sem ég átti hér heima og svo elduðum við Mince-curry og Maís-kókos-curry að indverskum hætti. Svo komu Kristján og Arif og bróðir hans Asif heim í mat og borðuðu, þetta var mjög skemmtilegt (þær heita Meenaz og Shabnam). Ég var síðan alveg fram á mánudag að borða maísréttinn, þær elduðu svo mikið og skildu svo allt eftir hér, ég er líka "alveg vitlaus" í þennan rétt, borðaði yfir mig af honum í þrjá dag í röð, því strákarnir vildu þetta ekki (of sterkt!) og Kristján fékk nóg á föstudaginn.
Í gærkvöldi bjó ég aftur til Mince-curry (hakkrétt). Svo ætla þær að kenna mér að gera fleiri rétti seinna, en indverskur matur finnst mér æðislega góður eins og þið sjáið. Í staðinn á ég svo að kenna þeim að búa til sætar kökur og gerbrauð.
Ég hætti núna, Kristján kom heim og er svo að fara aftur inn í bæ og setur þetta í póst í leiðinni. Vona að allir hafi það gott heima og bið að heilsa öllum. Bless, bless.
Ykkar dóttir
Greta

Um kaupfélagsstofnun, ferðalög og fleira

Tabora 30. janúar

Elsku mamma og pabbi.

Af okkur er allt gott að frétta. Hér er ennþá regntími en honum fer nú sennilega að ljúka það rignir sjaldnar og minna núna.
Allir eru hér við góða heilsu. Ég og strákarnir erum mest heima við, en Kristján þarf alltaf öðru hvoru að fara í ferðalög út í þorpin til skrafs og ráðagerða. Mér skilst á honum að starfið hér í Tabora-region gangi tiltölulega vel, það er komið að því að stofna kaupfélagið formlega, undirbúningsvinnu að mestu lokið og yfirvöld í Dodoma búin að lýsa blessun sinni yfir félagsstofnun. Kristján er mjög ánægður með það, því í sumum héruðum hefur félagsstofnun verið frestað til næsta árs. Ég held að Kristján sé búinn að vinna mjög ötullega að undirbúningnum auk þess sem hér hefur kannski verið meira fyrir hendi en sums staðar annarsstaðar.
Kristján er á "safari" núna, fór í gær og gisti í nótt í þorpi sem heitir Nzega og kemur svo aftur í kvöld. Hann var að tala um að ég og strákarnir kæmum með honum í ferð í eitthvert þorpið þegar tóbaksuppskeran hefst, svo við fengjum að sjá líf í tansanísku sveitaþorpi, en það höfum við ekki séð enn.
Við fórum á sunnudaginn var til staðar rétt hjá Nzega, þar sem er sænskur trúboðsskóli. Erindið var aðallega (fyrir utan sunnudagsbíltúr) að ræða skólamál Eysteins. Skólastjórinn þar ráðlagði okkur að sækja um skólavist fyrir hann í grískum skóla í Arusha, sem hann sgaði mjög góðan. Hann var upphaflega fyrir grikki, sem mikið var af hér áður fyrr, en nú er hann orðinn alþjóðlegur og er kennt á ensku. Skólastjórinn ætlar að ver okkur innan handar með umsókn, en hann þekkir skólastjórann þarna og eins getum við hitt hann og skoðað skólann þegar við förum til Nairobi en þá stoppum við hvort eð er í Arusha svo þetta er alveg "í leiðinni".
Ég fékk bréf frá Kjartani um daginn þar sem hann segir allt í lagi að fresta beinaskanninu og fá það þá í sumar ef við komum heim í frí. Við förum þá til Nairobi í lok febrúar/byrjun mars, og þá höfum við hugsað okkur að fara líka til Mombasa í nokkra daga og stunda sjó- og sólböð. Eins ætlum við að keyra gegnum Serengeti þjóðgarðinn, sennilega á bakaleið, því það kom í ljós verksmiðjugalli í bílnum, "differentialinn" í öðru hjólinu er eitthvað beyglaður og skröltir alltaf í honum. Kristján ætlar að fá nýtt stykki sent til Nairobi frá Japan og láta laga þetta þar og þá er bíllinn í fínu lagi. Annars hefur hann reynst mjög vel, mjög þægilegur að sitja í honum á vegum hér og mér gengur mjög vel að keyra hann. Hann er lipur eins og fólksbíll þótt maður sé hár í sætinu eins og í jeppa svo er hann með hægri ahndar stýri sem mér finnst mjög þægilegt. Við erums trax farin að hlakka til að fara í þetta frí, fyrir utan það að við ætlum nú að "kaupa svona sitt af hverju" í ALVÖRUbúðunum í Kenya. Meðal annars spólur með tónlist frá Tanzaníu, en þær fást ekki hérlendis!
Nú streyma tómatarnir úr "shambanum", við fengum líka banana um daginn, svo er grillaður maís með smjöri alltaf góður!
Ég slæ þá botni í þetta að sinni. Vona að ykkur líði vel og við biðjum öll að heilsa vinum og vandamönnum. Verið þið blessuð og sæl.
Ykkar dóttir
Greta

Daglegt líf

Tabora, 6. jan. "84

Elsku mamma og pabbi.

Ég ætla að byrja á því að þakka ykkur fyrir jólakortið, bókina og jólagjafirnar til strákanna, en nú er þetta allt komið, pakkinn frá Sviss kom seinast, bókin fyrst, í öfugri tímaröð við það sem þetta hefur verið sent. Pakkinn var tollskoðaður hér í Tabora að Kristjáni aðsjáandi. Það var ágætt, þá veit maður alla vega að engu hefur verið stolið úr honum.
Skutlurnar og módelin gerðu mikla lukku, Eysteinn er búinn að vera upptekinn við að líma módelin saman síðan pakkinn kom og kristján er búinn að búa til nokkrar skutlur fyrir Úlf. Þær fljúga stórkostlega vel.
Af okkur er allt gott að frétta, allt gengur sinn vanagang. Kristján er í dagsferðalagi til Nzega og Urambo, hann kemur aftur í kvöld, þá kveikjum við á nokkrum stjörnuljósum, fyrst þau voru ekki komin fyrir gamlárskvöld.
Strákarnir leika sér að flugmódelum, skutlum og Legói, svo gáfum við þeim rafmagnslest í jólagjöf (úr Justesen pöntunarlistanum), áðan voru þeir í vatnssulli með garðslönguna úti á grasflötinni. Það er ekki hægt að fara í sund þessa dagana því það er verið að skifta um vatn í lauginni, það var orðið grænt af gróðri (eins og í fiskabúri að sumarlagi!).
Ég var áðan að súrsa græna tómata úr garðinum, svo á ég líka fullt af baunbelgjum úr garðinum inni í frysti. Í gær bakaði ég rúgbrauð og heilhveitibrauð, svo það er ýmislegt fyrir mig að gera eins og þið sjáið þótt maður sé með vinnufólk. Við erm búin að segja Mama Pili upp og gott að vera laus við hana, hún kunni ekkert að vinna auk þess sem hún var sísníkjandi. En við ætlum að reyna að fá aðra betri í staðinn, nóg er framboðið af vinnuafli.
Eysteinn er alveg hræðilega latur að læra. Það kostar ógurlega kveinstafi og kvartanir í hvert skifti sem ég reyni að mjaka honum til að skrifa eða reikna. Svo núna ætlar Kristján að skrifa The International School í Moshi og vita hvort við fáum pláss fyrir hann þar, því það gengur ekki að hann leiki sér hér alla daga í smábarnaleikjum orðinn 11 ára gamall. Ég hugsa að hann hefði bara gott af því að fara að heiman undan pilsfaldi móður sinnar, alla vega má reyna þetta. Svo trufla þeir líka fyrir hvor öðrum þegar ég er að reyna að kenna þeim. Þegar ég læt Úlf staf stillir Eysteinn sér upp hjá okkur og hnussar; Huh, veist þetta ekki; en vitlaus, ahaha...o.s.frv., sem auðvitað verkar ekki hvetjandi á Úlf!
Hér rignir enn og rignir (sem betur fer) milli þess sem sólin skín, þá verður svalt hér; ég er búin að ganga í peysu í allan dag, það hellirigndi í alla nótt og fram á morgun og buið að vera "rigningarlegt" í allan dag.
Ætli ég láti þetta ekki duga að sinni. Ég bið kærlega að heilsa öllum heima á Íslandi, ég vona að öllum líði vel, og svo er alltaf kærkomið að fá bréf.
Verið þið blessuð og sæl.
Ykkar dóttir
Greta

Jól í Tabora

Tabora, 30. desember

Elsku mamma og pabbi.
Þá ætla ég loksins að drífa mig í að skrifa ykkur. Ég er búin að hafa heilmikið að gera síðan ég kom. Eins og þið vissuð kom Justesen pöntunin og sjófarangurinn viku áður en við fórum út, svo hér beið mín heilmikið verk að pakka upp og koma í lag þegar ég kom hingað. Auk þess dreif ég mig í að mála stofuna og sauma nýjar gardínur fyrir gluggana svo nú er hér bara orðið ansi huggulegt. Svo þurfti nú líka að undirbúa jólin svolítið, þótt sá undirbúningur þætti nú kannski ekki stórkostlegur á íslenskan mælikvarða. Okkur tókst að fá fallegt jólatré. Það er ekki barrtré, þótt það sé sviað á vöxt, ég veit ekki hvað það heitir, en svona greinar eru stundum seldar heima fyrir jól, þetta er mjög fíngert og fallegt, ég held bara að þetta sé fallegasta jólatré sem við höfum haft. Við höfðum jólaseríu með okkur, Heiða sendi mér jólahjörtu sem bara þurfti að flétta og svo bjó ég til rauðar og gylltar "kínverskar luktir" eins og við bjuggum til í gamla daga á Klaustri. Svo bakaði ég piparkökuhjörtu og hengdi á tréð, þetta er svo fallegt. Auk þess höfum við í glugganum "gyðingaljósið" frá ykkur. Ég keypti líka "jólajötufígúrur" úr svörtum leir og bjó til jötu með stráþaki. Síðan borðuðum við hangikjöt og ís á eftir á aðfangadagskvöld, þetta var svo hátíðlegt og jólalegt þótt ekki væri snjór, enda var enginn snjór í Betlehem fyrir tæplega 2000 árum eða hvað.
Ég var búin að fá bréf frá Heiðu fyrir jól og eins kort frá Lillu og Ella og Lísu. Ég fékk svo bréf frá Evu í gær, svo kannski fer pósturinn að smá tínast til okkar. Þeir eru víst ekki alltaf að flýta sér að sortera póstinn á pósthúsinu segir Kristján, en hefur komið þar "á bak við" og séð sömu pokana liggja óhreyfða eina 2 daga, 3ja daginn var búið að opna þá.
Ekki hefur nú farið mikið fyrir skólagöngu hjá strákunum ennþá og eru þeir víst fegnir, það skal þó takast fastari tökum eftir áramót. Úlfur hefur verið að stafa svolítið, var voða spenntur fyrst en voða fljótur að dofna áhuginn, honum gengur illa að muna samhljóðana.
Við komum við í Ndala þegar við komum og létum dr. Laduc hafa bréfið frá Kjartani. Hann er síðan búinn að athuga með rannsóknir sem hann bað um í Nairobi, en það er hægt að fá þær allar þar nema beinaskann. Dr. Laduc telur það þó allt í lagi að gera það ekki fyrr en eftir ca. 1/2-1 ár ef ég færi þá heim í þetta. Það er verið að berjast fyrir því núna að allir í verkefninu fái "home leave" einu sinni á samningstímanum svo hugsanlega komum við heim í frí næsta sumar og þá yrði þetta allt í lagi. En Laduc bað mig að skrifa Kjartani um þetta hvað ég gerð og fá hans álit hvort þetta mætti frestast, svo ég bíð eftir hans svari.
Ég hef verið að láta mér detta í hug ef við kæmum heim næsta sumar , hvort ekki væri upplagt að þið yrður okkur svo samferða út aftur í heimsókn til okkar?
Hér hefur rignt allan desember (meira og minna) flesta daga, regnið er mánuði seinna á feðinni núna en venjulega, sem kemur sér illa fyrir ræktunina (maís), nú vonast menn til að rigni út janúar (tóbak). Síðan á að rigna aftur í mars (vonandi). Regninu fylgja oftast þrumur og eldingar. Eitt kvöld stuttu eftir að við komum hingað kom æðislegt þrumveður sem stóð allt kvöldið. Eldingarnar lýstu upp eins og umbjartan dag með grænni og fjólublárri birtu, það var flott! Eysteini fannst þetta ofsaspennandi en Úlfur var hálfhræddur svo ég mátti sitja og lesa Andrés Önd fyrir hann og reyna að yfirgnæfa þrumurnar og regnið!
Hér ganga nú um fullt af Tansönum í fötum af Ragnarson og Eysteinssonfjölskyldunum. Damson garðyrkjumaður fékk Spánarskyrtuna hans pabba í jólagjöf og mér sýnist hann hinn ánægðasti í henni. Mwumvoa er búin að fá tvo kjóla af mömmu, ég hef ekki séð hana í þeim, kannski eru þeir of þröngir eða hún tímir ekki að vinna í þeim. Hún er sérstaklega dugleg og vandvirk, sama verður ekki sagt um Mömu Pili hún er óttaleg subba og sein að vinna og heldur tóm í kollinum, svo er hún alltaf að sníkja og kvabba, hún má ekki sjá saumsprettu á brók svo hún vilji ekki fá að eiga hana, svo við ætlum að segja ehnni upp um áramótin og reyna að fá aðra betri.
Nú voru Kristján og strákarnir að koma úr árangurslausum kók- og póstleiðangri, ekki var heldur búið að gera við Land Roverinn.
Hér eru spilaðar plötur alla daga allan daginn síðan "græjurnar" komu, það er þó ekki mjög fjörugt þessa stundina, útfararmars eftir Chopin (sonata nr. 2! Jæja, best að hætta þessu rausi og slá botn i þetta.
Við óskum ykkur gleðilegs nýárs og þökkum kærlega öll liðnu árin. Vonum að ykkur líði alltaf sem best og biðjum að heilsa öllum vinum og vandamönnum.
Kærar kveðjur
frá ykkar dóttur
Gretu

Óvænt heimför

Þessi atburðarás var öll lyginni líkust: Stuttu eftir að ég skrifaði þetta síðasta bréf fann ég hnút í hægra brjóstinu, þegar ég lá í sólabaði á bakka sundlaugarinnar góðu, innan um blómaskrúðið. Hafði einmitt þá um veturinn heima á Akureyri séð mynd um hvernig ætti að skoða á sér brjóstin, sem ég mundi eftir þarna og ákvað að prófa, loksins. Mundi einnig að það var sýnt að skoða líka geirvörtuna vel og einmitt þar, rétt við hana innanverða, fann ég lítinn hnút. Var að vonum ekki kát með þetta og drifum við okkur fjölskyldan fljótlega á litla hollenska trúboðs- og heilsugæslustöð 80 km frá Tabora, sem okkur var bent á að hefði á að skipa mjög færum evrópskum læknum. Þar var ég skoðuð og sagt að ég væri svo heppin að strax í næstu viku kæmi mjög fær skoskur skurðlæknir, sem hefði tekið sér ársfrí til að vinna í Afríku, fljúgandi til þeirra með "The Flying Doctors" frá Nairobi í Kenýa, til að gera aðgerðir. Þetta gekk eftir og viku seinna lagðist ég á skurðarborð í þessu litla trúboðssjúkrahúsi og hnúturinn var fjarlægður. Læknirinn tók hann svo með sér til Nairobi til greiningar hjá öðrum Evrópubúa í ársleyfi, mjög færum meinafræðingi, sem var fullkomlega treystandi til verksins.

Niðurstaðan kom viku seinna gegnum radíó: Þetta var brjóstakrabbamein. Þá var ekki hægt að greina á þessu stigi máls hversu alvarlegt tilfelli þetta væri, eins og nú er hægt. Sýndi sig síðar að þetta var mjög hægvaxandi krabbamein, þe.a.s. 17 1/2 ári síðar greindist hann aftur hjá mér, öllum og sérstklega mínum eigin krabbameinslækni til mikillar furðu, en hann hafði útskrifað mig sem heilbrigða 4 árum áður. En það er önnur saga.

Nú var brugðið við skjótt og við tók heimför, sem okkur hefði ekki órað fyrir tæpum 2 mánuðum áður, þegar við bjuggumst ekki við að koma heim næstu2 árin. En svona er tilveran undarleg. Flugum heim öll fjölskyldan á buisness class, tryggingarnar borguðu allt, gistingu í Kaupmannahöfn einnig.

Heima fór ég strax á Landspítalann, þar sem var framkvæmd ítarlegri aðgerð til að rannsaka aðliggjandi svæði, sem reyndust frí, en ég var hugsanlega fyrsta kona á Íslandi sem brjóstið var ekki tekið af við þessar aðstæður, en fékk fleygskurð. Var ég því skiljanlega mjög fegin, enda ekki nema 32 ára (auk þess fremur brjóstgóð, svo viðbrigðin hefðu orðið ansi mikil að hafa bara annað).

Eiginmaðurinn fyrrverandi flaug síðan aftur út til Tanzaníu, en við tók lyfja- og geislameðferð hjá mér, sem ég kom þó frekar létt út úr, missti t.d. ekki hárið, heldur þynntist það bara aðeins (sást í greiðunni!). Þann tíma dvaldi ég að mestu hjá föðursystur minni Sigrúnu hér í Reykjavík, en drengirnir voru norður á Húsvík hjá tengdaforeldrum mínum mest allan þennan tíma, það er að segja næstu 3 mánuði.
Þá var meðferðinni lokið og við gátum farið aftur til Afríku!

-?-

Halló! Elsku afi og amma. Nú er ég kominn til Tabora. ég flaug hingað með Tansaníska flugfélaginu, Air Tansania. Vélarnar eru bláar með gíraffa á stélinu. Pabbi og mamma eru búin að senda bréf með öllum upplýsingum um ýmislegt en ekki þetta: Hér í landi er engin bílaskoðun eða ljósaskoðun. Löggunni er sama þó að maður keyri á ljóslausum og bremsulausum bíl. Hér eru sama og engar umferðarreglur.
Við Úlli leikum okkur við 2 danska stráka sem heita Tómas og Kasper. Þeir eiga kofa uppi í tré sem pabbi þeirra smíðaði. mamma þakkar fyrir myndina og bréfið sem kom 4. ágúst.
Pabbi, mamma og Úlli biðja að heilsa.

Bless, bless
ykkar Eysteinn

Komin til Tabora

Tabora, 7. júlí, 1983.

Elsku mamma og pabbi.
Þá erum við komin alla leið til Tabora. Við fengum loks flug hingað 30. júlí.
Hér er dýrðlegt að vera. Húsið er mjög gott, miklu betra en maður þorði að vona og nágrannarnir allir mjög vingjarnlegir og hjálpsamir, sem kom sér vel fyrstu dagana, meðan við höfðum ekki neitt til neins, lánuðu okkur teppi, potta, diska og matvæli. Svo höfum við verið að viða að okkur hinu og þessu inni í bæ, en hér er hægt að fá ýmislegt, þó "kvalitetið" sé kannski ekki stórkostlegt.En húsið stendur hér á afgirtu svæði með öðrum húsum sem Bretar eiga, og aðallega búa hér Bretar sem vinna við project sem heitir "Landuse" og miðar að aukinni og bættri ræktun. Hér eru verðir á vakt allan sólarhringinn og hliðinu er lokað við sólsetur og til morguns, svo hér eiga engir bófar að geta komist inn, enda hefur víst aldrei verið brotist hér inn. Á svæðinu er ágæt sundlaug sem hægt er að fá sér sundspretti í og liggja síðan á bakkanum og sóla sig innan um blómaskrúð.
Í næsta húsi við okkur búa ung ensk hjón sem heita Anna og Nick Hudson. Daginn eftir að við komum fór Anna með mér inn í bæ og sýndi mér markaðinn og hvernig maður ber sig til við að versla á honum. Einnig sýndi hún mér aðra helstu staði í bænum, s.s. "polisi", pósthúsið, litlu indverjabúðirnar þar sem aðallega er hægt að fá vefnaðarvörur, föt, hreinlætisvörur, djús o.fl. Svo sýndi hún mér bókasafnið en ég er ekki farin að koma þar inn ennþá, og BÓKABÚÐINA, en hér er mjög góð bókabúð á tansanískan mælikvarða. Það er englendingur sem heitir Norman sem á hana og kynnti Anna mig fyrir honum, en hann er búinn að búa í Tanzaníu í 30 ár. En þessi bókabúð er "stunduð" af Evrópubúum hér, en þarna er oft hægt að fá mjög góðar bækur, og einnig fallega minjagripi.
Við höfum einnig kynnst hér mjög indælum dönskum hjónum sem heita Pia og Flemming Andersen, en þau búa í húsi hér skammt frá "compoundinu". Þau eiga tvo stráka, Thomas og Kasper, sem eru á aldur við Úlf, og litla stelpu, Charlotte, sem er 14 mánaða. Þetta er alveg sérstaklega elskulegt fólk. Flemming tók á móti okkur á flugvellinum þegar við komum og fór með okku beint heim í hádegismat til sín. Síðan hafa þau keppst við að bjóða okkur aðstoð og hafa lánað okkur fullt af alls kyns matvælum. En síðan getum við pðantað alls kyns matvæli og vörur í gegnum danskan verðlista, svo mann á ekki að þurfa að vanta neitt hér, nema þá einhverja smáhluti, en ég ætla að telja upp hér á eftir ýmislegt sem setja mætti í pakkann sem mamma var að tala um að senda.
Við erum búin að fá húshjálp, hún heitir Mama Mwumwoa (ekki beint auðvelt í framburði!), þetta er kona um fertugt og mér líst mjög vel á hana. Hún er hjá Önnu 2 daga í viku og hún er mjög ánægð með hana. Síðan verður hún 4 daga hjá mér, tekur til og þrífur og þvær þvott, og svo get ég beðið hana um að elda tansanískan mat þegar ég vil, en annars ætla ég að elda matinn sjálf. En eitt fannt mér skrítið: Þegar hún var búin að þvo góða stund bauð ég henni kaffi. Hún brosti bara og hristi höfuðið, sagði eitthvað á swahili sem ég ekki skildi og benti á munninn á sér. Svo ég fór til Önnu til að kanna málið. Hún sagði mér að Mama Mwumvoa væri Múhameðstrúar og þennan mánuð mætti hún hvorki smakka vott nér þurrt fyrr en eftir sólsetur, en annars þætti henni mjög gott að fá kaffi- eða tesopa. Svo aumingjans konan vann hér þurrbrjóst og sleitulaust frá kl. 7.30 og fram yfir hádegi til 13.30.
Annars er algjörlega nauðsynlegt að læra swahili hér til þess að geta talað við fólkið hérna, því venjulegt fólk kann mjög lítið í ensku, það eru helst unglingar og svo fólk sem er meira menntað sem kann ensku. En þeir sem vinna hjá Danida eiga rétt á 3.000 D.kr. til að borga Swahilikennara, svo við reynum fljótlega að finna okkur einhvern.Annars líst mér mjög vel á Tabora, mun betur en t.d. Dar. Hér er loftslagið mjög þægilegt, að vísu er þetta kaldasti tíminn, en maður finnur stórmun hvað loftið hér er þurrara en í Dar. Hér er flatlent en stór mangótré prýða umhverfið mjög (Arabar fluttu þau með sér hingað á 16. öld, en í Tabora stofnsettu þeir e.k. verslunarmiðstöð) og alls staðar er gróður þótt hér sé frekar þurrt núna og á eftir að þorna meira þangað til í október, en þá byrja rigningar, en þá rignir eins og hellt sé úr fötu ca. 2 mánuði og síðan alltaf af og til fram í mars-apríl, en á þeim tíma er allt hér iðjagrænt og gróðurinn þýtur upp.
Eitt af því sem ég er fegin að við fáum hér er mjólk og smjör og m.a.s. ostur. Við kaupum 3 flöskur (mælt í djúsflöskum) á dag frá bónda hér í nágrenninu síðan þurfum við að gerilsneiða hana þ.e. hita upp undir suðu. Þetta er góð mjólk, a.m.k. ennþá, en þegar þornar meir er dálítil hætta á að karlinn fari að blanda vatni í til að halda sér í 3 flöskum, en við erum heppin, því sumir setja alltaf vatn saman við, t.d. bóndinn sem Flemming og Pia versluðu við áður, en þau föttuðu það ekki fyrr en þau fóru að versla við þennan.
Jæja, ég ætla þá að slá botn i þetta að sinni. Bestu kveðjur til allra heima á Íslandi og vonum að þið hafið það gott.
Ykkar dóttir Greta

Fyrsta bréfið


Dar es Salaam, 23. júní, ´83



Elsku mamma og pabbi.
Við búum hér á Bahari Beach Hotel í góðu yfirlæti. Þetta er besta hótelið í Dar og hægt að lifa hér sannkölluðu letilífi. Hitinn er u.þ.b. 25°C en alltaf hressandi vindur af hafi, hrein, hvít baðströnd hér beint fyrir neðan (og ekki krökk af fólki maður hefur nóg pláss!) sett vaggandi pálmatrjám, strákarnir eru aldeilis hrifnir af því að busla í öldunum. Svo er hér líka sundlaug þar sem gott er að fá sér dýfu og leggjast síðan í sólbað á bakkann. Maturinn hér er mjög góður og starfsfólkið vingjarnlegt. Góður fiskur, alls kyns grænmeti og ferskir ávextir í eftirmat. Í gærkvöldi fengum við einn besta mat sem ég hef fengið, kjúklinga í kókósmjólkursósu, og með því suðubanana, yams, baunir, hrísgrjón og ýmislegt fleira, ég gat ekki smakkað á því öllu því ég var orðin svo pakksödd. Eftir matinn kom svo dansflokkur og sýndi þjóðlega og þjóðernislega dansa og söng, hljóðfæraflokkur spilaði undir á marimba (e.k. xylofónn eingöngu úr tré) og trommur. Þetta var mjög skemmtilegt og hrífandi. Allt saman ungt fólk brosandi út að eyrum sem dansaði og söng af hjartans list.

Ég er búin að fara einu sinni til Dar, en hótelið er 45 km utan við borgina. Þegar við komum sáum við ekki mikið því það var orðið koldimmt, en samt leist mér strax vel á það sem ég sá, þótt flugstöðin sé ekki sú flottasta í heimi. Við lentum kl. 11.30 að staðartíma (3 klst. á undan ísl. tíma) þá höfðum við millilent í Aþenu (1/2 klst.) þar sem við fórum út, og í Jeddah í Saudi-Arabíu (45 mín.) en þar mátti enginn hreyfa sig út úr vélinni, allt áfengi var læst inni og farþegum ráðið til að fela allar áfengisflöskur, annars eru þær gerðar upptækar af "hreingerningarliði" sem kemur um borð. En áfram með smjörið. Kristján tók á móti okkur á flugvellinum en síðan tók u.þ.b. klukkustund að láta skoða pappíra og fá stimpla, þeir eru ekki mjög fljótir að svoleiðis og við þurftum að standa í heilmikilli biðröð. Síðan keyrðum við hingað á Land Rover skrifli sem projectið á og hann er með í láni. Morguninn eftir fórum við í sjóinn og síðan inn til
Dar, sem er ekkert mjög stórborgarleg þótt þetta sé stærsta borg í landinu. En við eigum eftir að fara aftur og skoða betur. Eitt sniðugt skeði: Kristján fór í banka og á meðan vorum við að skoða varning sem götusalar voru með fyrir utan, útskorna muni úr tré og fílabeini. Ég keypti hatta á báða strákana í Tivoli (við fórum 2svar í Tivoli, 1 sinni í Dýragarðinn [stoppuðum í Kaupmannahöfn í 3 daga á leiðinni út]) og einn götusalann ungan strák langaði svo mikið að eignast svona hatt; en Eysteinn var með sinn á sér, og bauð í skiftum útskorinn fíl en strákarnir eru voða hrifnir af þessum fígúrum. Þið hefðuð átt að sjá andlitið á stráknum og hvernig hann hoppaði á gangstéttinni þegar við ákváðum að ganga að þessu. Svo nú gengur hann vafalaust um voða fínn í Dar með Tivoli hatt á höfðinu!
Já, svo ég segi ykkur líka frá Kaupmannahafnar dvölinni þá var það mjög skemmtilegt. Við vorum svo heppin með veður. Það var hitabylgja og 20-24°hiti alla dagana. Við fórum 2svar í Tivoli, ég keypti svokallað Tur-pas fyrir strákana, armband með merki sem gildir fyrir allan daginn í öll tæki eins oft og hver vill, svo þeir gátu þeyst á milli tækja að vild og skemmtu sér konunglega.
Við erum búin að fá hús í Tabora, Kristján er búinn að skoða það og sofa þar í 3 nætur, hann segir að það sé mjög gott. Þetta er í "compound" með 8-10 öðrum húsum sem breskt project á og þarna er sundlaug fyrir öll húsin og sameiginlegir verðir, sem eru alla vega sumir búnir að vera í nokkur ár og þarna hefur aldrei verið brotist inn. Breskt fólk sem Kristján hitti og borðaði hjá og býr þarna (maðurinn er yfirm. v. projectið) er með kokk sem er að leysa þeirra kokk af í 2 mánuði, síðan getum við kannski fengið hann þegar þeirra kokkur kemur aftur og ef þessi reynist vel. Hjá þeim eldar kokkurinn morgun- og hádegismat og annast daglega hreingerningu, síðan er kona sem gengur milli húsanna og gerir hreint og þvær þvott. En nóg um það. Ég ætla að senda með rissmynd sem Kristján gerði af húsinu.
Ég ætla þá að slá botn í þetta að sinni. Ástarkveðjur til allra heima, vona að allir hafi það sem best; og að sumarið fari nú að koma á Íslandi. Bless, bless.
Ykkar dóttir,
Greta

P.S. Ég veit ekki hvenær við komumst uppeftir. Það liggur niðri flug til Tabora. Þannig stendur á því að brunabíllinn á flugvellinum þar er bilaður. Varahlutir í hann eru á vörubíl sem er stopp í Dodoma vegna þess að það er "hamna diesel" (ekki til) í landinu. So there you are! Einn af Svíunum er strand hér á hótelinu af sömu ástæðu, hann er á dieselbíl. En það gerir svo sem ekkert til að þurfa að bíða hér því DANIDA borgar uppihaldið, annars væri þetta sjálfsagt dýrt. En kannski komumst við til Tabora með því að fljúga til Mwanza eða Dodoma og láta síðan ná í okkur á bíl eða fara með lest, það kemur í ljós.
Ég sá þegar ég skoðaði farseðilinn minn að farið mitt hefur kostað u.þ.b. 30.000 ísl. kr. þ.e. Akureyri-Kbh-Dar es Salaam, það er á economy class.
Bless aftur
Greta