Hversdagslíf í Moshi
Moshi 19. sept. "85
Elsku mamma og pabbi!Þakka þér fyrir bréfið mamma það er nú orðið þó nokkuð síðan ég fékk það og tími til kominn að fara að svara. En hjá okkur skeður nú svo ósköp fátt að það getur orðið erfitt að tína eitthvað til að segja frá sem markvert gæti talist.
Okkur þótti nú heldur súrt í broti að þið skulið vera hætt við að koma í vetur, maður var hálfpartinn farinn að hlakka til að þið kæmuð, en vonandi getur orðið af því seinna.
Af okkur er allt gott að frétta, nema hvað Kristján er alltaf hálfslappur. En það getur víst tekið svona langan tíma að jafna sig eftir hepatitis, sérstaklega ef fólk fer ekki nógu vel með sig. Olof Englund, Svíi sem er kominn hingað til að vinna í Nordic Project fékk hepatitis þegar hann var í Indónesíu fyrir 4-5 árum. Hann segist hafa verið 2 ár að jafna sig alveg, en hann hafð líka farið of geyst af stað og ekki áttað sig á því hversu slappur hann var í raun og veru.
En mér finnst einkennilegt hversu misþungt þessi sjúkdómur virðist leggjast á fólk og yfirleitt held ég eru karlmenn lengur að ná sér en konur. Fer þetta kannski eitthvað eftir því hversu sterkt ónæmiskerfi líkamans er? Fær fólk með öflugar ónæmisvarnir frekar krabbamein en aðrir? GBÚ komst yfir sína lifrarbólgu að mestu á 2-3 vikum þótt greina mætti að vísu truflanir á lifrarstarfsemi mánuði seinna. En þessar bollaleggingar koma af því að ég las smágrein í Mogga (við fáum laugardags- og sunnudagsblöðin) um rannsóknir á þessu sviði og þ.á.m. meðgöngu og hvers vegna líkami konunnar hafnar ekki fóstrinu og hugsanlegt samband milli krabbameins og ónæmisvarna líkamans.
Við erum búin að fá 2 bréf frá Eysteini og tala við hann 2svar í síma. Hann virðist mjög ánægður að vera kominn aftur heim til Íslands og ferðin hafði líka gengið mjög vel. Hann verður vonandi duglegur að læra svo afi hans og amma þurfi ekkert að skifta sér af því, þá gengur þetta örugglega allt vel. Afi hans setti líka sem skilyrði fyrir því að hann kæmi til þeirra að hann yrði duglegur að læra, svo vonandi reynir hann að standa sig.
Þið hafið líklega frétt að í stað Eysteins höfum við fengið fósturdóttur Helgu Soffíu Einarsdóttur, dóttur Einars og Stínu í Arusha, en hún gengur hér virka daga í skóla, þann sama og Úlfur, International School Moshi. Þau ná svo í hana um helgar, en þetta er aðeins klukkustundar akstur. Einar keyrir þetta reyndar á styttri tíma, hann er svoddan ökufantur, enda aumingja Stína alltaf stjörf af hræðslu í bíl með honum að eigin sögn.
Úlfur skólastrákur með bekkjarfélögum og aðalkennaranum sínum.
Jæja, á morgun er föstudagur og seinasti skóladagur vikunnar, þá andar maður léttar, því ég er ekki enn orðin vön því að vakna kl. 6.30 þótt 4 vikur séu síðan skólinn byrjaði, mér finnst þetta heldur snemmt, en skólinn er frá 7.30 til 12.50. Síðan þarf Helga að fara aftur 2svar í viku frá 14.30 til 16.15. Hún er í S1, sem er sama og 7. bekkur heima, svo hún er ári á undan því hún verður ekki 13 ára fyrr en í apríl, en hún er greind og dugleg að læra.
Úlfur er kominn í tíma í hestamennsku á vegum skólans. Það finnst honum mjög spennandi, hann er búinn að fara 2svar. Helga er líka "í hestum".
Í garðinum á Kilimanjaro Road
Ég er búin að fá eina vinnukonu í viðbót, sú heitir Fríða og kann að búa til mat á tansaníska vísu sem mér finnst mjög góður matur. Ég þarf samt að kenna henni að búa til evrópska rétti líka, því Kristján verður argur þegar hann fær eintóman "Afríkanamat" marga daga í röð, en matur getur oft verið honum ótrúlega mikið hjartans mál, finnst mér, en ég er nú kannski ekki dómbær um þetta því eins þið vitið hef ég aldrei verið talin matmanneskja. Svo þegar húsbóndinn fer að nöldra um afríkanamat (eða helst áður en) fer ég í eldhúsið og bý til kjötbollur og steiktan fisk og "lasagna à la Scandinavia".
Það er nú best að hætta þessu skrifrausi að sinni. Ég bið að heilsa öllum heima og vonast eftir bréfum, þeim verður svarað, fyrr eða síðar!
Ég er búin að fá eina vinnukonu í viðbót, sú heitir Fríða og kann að búa til mat á tansaníska vísu sem mér finnst mjög góður matur. Ég þarf samt að kenna henni að búa til evrópska rétti líka, því Kristján verður argur þegar hann fær eintóman "Afríkanamat" marga daga í röð, en matur getur oft verið honum ótrúlega mikið hjartans mál, finnst mér, en ég er nú kannski ekki dómbær um þetta því eins þið vitið hef ég aldrei verið talin matmanneskja. Svo þegar húsbóndinn fer að nöldra um afríkanamat (eða helst áður en) fer ég í eldhúsið og bý til kjötbollur og steiktan fisk og "lasagna à la Scandinavia".
Það er nú best að hætta þessu skrifrausi að sinni. Ég bið að heilsa öllum heima og vonast eftir bréfum, þeim verður svarað, fyrr eða síðar!
Ykkar dóttir
Greta
Greta
Vinstra megin: Annar hundanna okkar ennþá hvolpur.
Hægra megin: Góðir gestir frá Tabora í heimsókn.
Hægra megin: Góðir gestir frá Tabora í heimsókn.
P.s. Kristján og Úlfur biðja að heilsa. Ég hef ekki fengið Dag enn, en hver veit?! Ég er ekki heldur búin að fá bókina en ég hlakka mikið til að lesa hana, vona bara að hún berist. Fastur liður á kvöldin hjá okkur núna: Ég les 1 kafla úr Sögunni endalausu [eftir Michael Ende]fyrir Úlf og Helgu Soffíu fyrir svefninn og erum við öll mjög spennt í sögunni. GÚ.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home