Bréf frá Tanzaníu

Árin 1983-86 bjó ég í Tanzaníu í Afríku, ásamt þáverandi eiginmanni mínum og tveimur sonum. Fyrir nokkru síðan lét mamma mig fá fullt af bréfum sem ég og eldri strákurinn skrifuðum foreldrum mínum á meðan á dvölinni stóð. Fannst mér mjög fróðlegt og skemmtilegt að lesa þau aftur svona löngu seinna. Ég ákvað þess vegna að skrifa þau upp hér á netinu, sjálfri mér og kannski einhverjum fleirum til fróðleiks og skemmtunar.

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

Ég hef oft verið spurð: "Hvernig var að búa í Afríku?"

Kannski finnið þið eitthvað af svörunum hér. K A R I B U N I ! (Velkomin!)

Sögulegt ferðalag til Mwanza



Tabora 24. feb. "84

Elsku mamma og pabbi.

Þá erum við búin að fara til Mwanza. Það var mjög gaman þó ekki færi allt samkvæmt áætlun (en við því er alltaf að búast hér hvort sem er). Við keyrðum til Mwanza á Land-Rover s.l. fimmtudag. 60 km utan við Mwanza heyrðum við skrítið hljóð í bílnum og Kristján hægði ferðina. eins gott, því augnabliki síðar hoppaði vinstra afturhjólið fram úr okkur með gírskafti og öllu, þvert yfir veginn og út í buskann en bíllinn sunkaðist auðvitað í götuna. Fljótlega dreif þarna að svertingja sem höfðu séð þetta og eins stoppaði fljótlega vörubíll sem við vorun nýbúin að fara fram úr. Þeir fóru strax að reyna að gera við. Síðan stoppuðu þarna 1 Hollendingur + 1 Belgi á leið frá Mwanza til Shinyanga. Þeim tókst að koma hjólinu á svo við gátum keyrt til Mwanza á 40 km hraða bremsulaus. Þangað komum við kl. 10 um kvöldið. Þar voru öll almennileg hótel full svo við urðum að gista á heldur ömurlegu hóteli sem heitir Hotel Victoria, en okkur var lofað gistingu á öðru hóteli strax daginn eftir, við vorum svikin um það svo við urðum að gista aftur á Hotel Victoria. Þriðju nóttina fengum við svo gistingu hjá finnskum hjónum sem eru í Mwanza, en þar var allt fullt af fólki hinar næturnar, en það var nú farið. Fjórðu nóttina sváfum við svo í lest frá Mwanza til Tabora í svefnvagni. Fórum kl. 9 um kvöldið og vorum komin kl. 7 um morguninn.
Það er mjög fallegt í Mwanza við Victoríuvatnið, háir klettar og fjöll og svo vatnið sjálft. Annan fundardaginn fóru konur og börn í siglingu út í eyju þarna rétt hjá þar sem er e.k. dýragarður, þar eru m.a. gíraffar, gnýr, 1 ljón, páfuglar, api og flóðhestar. Seinasta daginn í Mwanza fórum við svo með Hannu og Ritvu og þeirra krökkum á safn utan við bæinn sem heitir Sukumu-safn og er e.k. Byggðasafn með gömlum munum úr sögu Afríku, auk þess er þarna kirkja, leirbrennsluverkstæði og lítil trévinnustofa ásamt sölubúð fyrir ferðamenn. Það stóð yfir messa meðan við vorum þarna, við stóðum úti á tröppum og hlustuðum á sönginn sem er mjög frábrugðinn íslenskum kirkjusöng og "æðislega flottur".
Þessa vikuna hefur verið meira og minna rafmagnslaust hér í Tabora, því það gleymdist nefnilega að panta diesel á rafstöðina, við höfum fengið rafmagn ca. 2 klst. á kvöldin.
Í byrjun apríl á svo að vera ráðstefna fyrir allt Projectið í Arusha og í tengslum við það myndum við sennilega fara í frí til Kenya og þá fer ég í rannsókn í Nairobi.
Ég er nú að verða dálítið langeygð eftir pósti frá ykkur ég hef ekkert fengið síðan í byrjun janúar, ég vonast nú eftir bréfi fljótlega.
Vona svo að allir hafi það gott heima og við biðjum öll kærlega að heilsa vinum og vandamönnum. Verið þið blessuð og sæl.
Ykkar dóttir
Greta

0 Comments:

Post a Comment

<< Home