Kenyaferð og meira um flutninga
Tabora 15. maí "84
Elsku mamma og pabbi.Ég ætla að byrja á að þakka þér fyrir bréfið mamma sem ég fékk núna í byrjun maí og allar blaðaúrklippurnar. Póstsamgöngur eru nú að komast í lag hér því Air Tanzania er farið að fljúga hingað aftur.
Það var gaman að heyra að allt hefði gengið vel hjá Rögnu, Eva var búin að skrifa mér að þar væri fjölgunar von. Það var líka gaman fyrir hana að fá strák, fyrst hún á nú tvær stelpur fyrir og að hann skuli vera svona hraustur og frískur.
Við erum nú búin að gera víðreist í apríl. 5. apríl lögðum við af stað til Dar es Salaam gistum í Dodoma eina nótt og fórum svo til Kristínar og Einars Gústafssonar, hinna Íslendinganna sem eru hér, en það er búið að flytja þau til Dar. 8. apríl keyrðu þeir (karlmennirnir) svo til Arusha á viku ráðstefnu en ég og strákarnir dvöldumst í góðu yfirlæti hjá Kristínu. Þau eiga 2 krakka, Helgu Soffíu 11 ára og Einar 8 ára svo nú var aldeilis hægt að leika sér. Kristján og Einar komu svo aftur frá Arusha 14. apríl og 18. apríl lögðum við svo öll af stað til Kenya, gistum eina nótt í Arusha og keyrðum svo til Nairobi daginn eftir. Vorum þar til 26. Keyrðum sömu leið til baka, komum til Dar seint að kvöldi 27. Síðan lögðum við af stað til Tabora 1. maí komum heim 2. maí. Alls eru þetta 4000 km(fyrir utan ferð Einars og Kristjáns).
Það var dálítið skrítið að koma til Nairobi frá Tanzaníu, þar eru allar búðir troðfullar af alls kyns varningi, rétt eins og á Vesturlöndum og mikill stórborgarbragur á öllu, en í Kenya er allt annað hagkerfi við lýði en hér og einkaframtakið fær að njóta sín. Þó er Kenya þróunarland og mikil fátækt og skortur fyrirfinnst þar þó þess sjáist ekki merki í miðborg Nairobi. Og þó, þar eru víða ömurlegir betlarar og svo svikahrappar sem reyna að plata peninga út úr ríkum ferðamönnum með alls kyns raunasögum. Eins er fullt af götusölum með alls kyns "túrista"varning og þeir eru margir ákaflega ágengir og elta mann jafnvel langar leiðir. Þessir hlutir eru meira áberandi í Nairobi en í Dar es Salaam og fylgir auðvitað túrismanum.
Í Nairobi fór ég svo í "eftirlit" á Nairobi Hospital sem þykir mjög góður (t.d. var íslensk kona sem ég hitti að fara þar í móðurlífsaðgerð helgina eftir að við fórum heim aftur). Ég var að vísu búin að fara í skoðun hér [í Tabora] í mars, en hún var tæplega nógu áreiðanleg. Læknirinn sem ég hitti í Nairobi sagði þegar hann sá lungnamyndina frá Tabora:"This is a horrible x-ray!" En þarna fékk ég sem sagt góða skoðun og allt var í lagi. Það eina sem þeir gátu ekki gert var beinaskann, en Kjartan telur víst ráðlegt að láta gera það innan árs frá því að sjúkdómurinn greindist. Þess vegna hef ég hugsað mér að koma heim í byrjun júlí, ég fæ ferðir fyrir mig og strákana borgaðar vegna þess að ekki er hægt að gera þetta hér, af Baltica, danska tryggingafélaginu. Kristján ætlar síðan að reyna að finna sér ódýrt far til Kaupin (sennilega Aeroflot) og koma líka heim í ca. 2 vikur en ég hef nú hugsað mér að stoppa eitthvað lengur með strákana fyrst við verðum komin.
Hvernig er með ykkur og plön fyrir sumarið, verðið þið ekki eitthvað heima í sumar?
Einu var ég næstum búin að gleyma að segja ykkur frá: Á ráðstefnunni í Arusha var ákveðið að flytja okkur á annan stað, en ennþá hefur ekki verið ákveðið hvert en það verður gert núna fyrir lok mánaðarins. En við settum það skilyrði að við yrðum aðeins sett á stað þar sem væri skóli fyrir strákana, enda á ekki að vera neinn vandi fyrir DANIDA að raða þannig á staðina að barnafólk sé þar sem skólar eru. En þeir staðir sem til greina koma eru Dar es Salaam, Tanga, Moshi, Arusha, Mwanza. Það á að leggja niður aðstoð við minni staði og einbeita sér að stærri stöðunum, hafa fleiri menn á hverjum stað sem hafa samvinnu en það virðist vænlegra til árangurs en að setja menn niður einn og einn á smástaði. En sennilega flytjum við þá einhvern tíma í júní. Við hlökkum öll frekar til, því þótt Tabora sé ágætur staður þá er hér heldur fábreytilegt (svona e.k. Þórshöfn á Langanesi).
Ég læt þetta þá nægja að sinni. Vona að öllum líði vel heima og bestu kveðjur til allra, afmæliskveðjur til Evu.
Verið þið blessuð og sæl.
Ykkar dóttir
Greta
Ykkar dóttir
Greta
0 Comments:
Post a Comment
<< Home