Bréf frá Tanzaníu

Árin 1983-86 bjó ég í Tanzaníu í Afríku, ásamt þáverandi eiginmanni mínum og tveimur sonum. Fyrir nokkru síðan lét mamma mig fá fullt af bréfum sem ég og eldri strákurinn skrifuðum foreldrum mínum á meðan á dvölinni stóð. Fannst mér mjög fróðlegt og skemmtilegt að lesa þau aftur svona löngu seinna. Ég ákvað þess vegna að skrifa þau upp hér á netinu, sjálfri mér og kannski einhverjum fleirum til fróðleiks og skemmtunar.

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

Ég hef oft verið spurð: "Hvernig var að búa í Afríku?"

Kannski finnið þið eitthvað af svörunum hér. K A R I B U N I ! (Velkomin!)

Óvænt heimför

Þessi atburðarás var öll lyginni líkust: Stuttu eftir að ég skrifaði þetta síðasta bréf fann ég hnút í hægra brjóstinu, þegar ég lá í sólabaði á bakka sundlaugarinnar góðu, innan um blómaskrúðið. Hafði einmitt þá um veturinn heima á Akureyri séð mynd um hvernig ætti að skoða á sér brjóstin, sem ég mundi eftir þarna og ákvað að prófa, loksins. Mundi einnig að það var sýnt að skoða líka geirvörtuna vel og einmitt þar, rétt við hana innanverða, fann ég lítinn hnút. Var að vonum ekki kát með þetta og drifum við okkur fjölskyldan fljótlega á litla hollenska trúboðs- og heilsugæslustöð 80 km frá Tabora, sem okkur var bent á að hefði á að skipa mjög færum evrópskum læknum. Þar var ég skoðuð og sagt að ég væri svo heppin að strax í næstu viku kæmi mjög fær skoskur skurðlæknir, sem hefði tekið sér ársfrí til að vinna í Afríku, fljúgandi til þeirra með "The Flying Doctors" frá Nairobi í Kenýa, til að gera aðgerðir. Þetta gekk eftir og viku seinna lagðist ég á skurðarborð í þessu litla trúboðssjúkrahúsi og hnúturinn var fjarlægður. Læknirinn tók hann svo með sér til Nairobi til greiningar hjá öðrum Evrópubúa í ársleyfi, mjög færum meinafræðingi, sem var fullkomlega treystandi til verksins.

Niðurstaðan kom viku seinna gegnum radíó: Þetta var brjóstakrabbamein. Þá var ekki hægt að greina á þessu stigi máls hversu alvarlegt tilfelli þetta væri, eins og nú er hægt. Sýndi sig síðar að þetta var mjög hægvaxandi krabbamein, þe.a.s. 17 1/2 ári síðar greindist hann aftur hjá mér, öllum og sérstklega mínum eigin krabbameinslækni til mikillar furðu, en hann hafði útskrifað mig sem heilbrigða 4 árum áður. En það er önnur saga.

Nú var brugðið við skjótt og við tók heimför, sem okkur hefði ekki órað fyrir tæpum 2 mánuðum áður, þegar við bjuggumst ekki við að koma heim næstu2 árin. En svona er tilveran undarleg. Flugum heim öll fjölskyldan á buisness class, tryggingarnar borguðu allt, gistingu í Kaupmannahöfn einnig.

Heima fór ég strax á Landspítalann, þar sem var framkvæmd ítarlegri aðgerð til að rannsaka aðliggjandi svæði, sem reyndust frí, en ég var hugsanlega fyrsta kona á Íslandi sem brjóstið var ekki tekið af við þessar aðstæður, en fékk fleygskurð. Var ég því skiljanlega mjög fegin, enda ekki nema 32 ára (auk þess fremur brjóstgóð, svo viðbrigðin hefðu orðið ansi mikil að hafa bara annað).

Eiginmaðurinn fyrrverandi flaug síðan aftur út til Tanzaníu, en við tók lyfja- og geislameðferð hjá mér, sem ég kom þó frekar létt út úr, missti t.d. ekki hárið, heldur þynntist það bara aðeins (sást í greiðunni!). Þann tíma dvaldi ég að mestu hjá föðursystur minni Sigrúnu hér í Reykjavík, en drengirnir voru norður á Húsvík hjá tengdaforeldrum mínum mest allan þennan tíma, það er að segja næstu 3 mánuði.
Þá var meðferðinni lokið og við gátum farið aftur til Afríku!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home