Óvænt heimför


Niðurstaðan kom viku seinna gegnum radíó: Þetta var brjóstakrabbamein. Þá var ekki hægt að greina á þessu stigi máls hversu alvarlegt tilfelli þetta væri, eins og nú er hægt. Sýndi sig síðar að þetta var mjög hægvaxandi krabbamein, þe.a.s. 17 1/2 ári síðar greindist hann aftur hjá mér, öllum og sérstklega mínum eigin krabbameinslækni til mikillar furðu, en hann hafði útskrifað mig sem heilbrigða 4 árum áður. En það er önnur saga.
Nú var brugðið við skjótt og við tók heimför, sem okkur hefði ekki órað fyrir tæpum 2 mánuðum áður, þegar við bjuggumst ekki við að koma heim næstu2 árin. En svona er tilveran undarleg. Flugum heim öll fjölskyldan á buisness class, tryggingarnar borguðu allt, gistingu í Kaupmannahöfn einnig.
Heima fór ég strax á Landspítalann, þar sem var framkvæmd ítarlegri aðgerð til að rannsaka aðliggjandi svæði, sem reyndust frí, en ég var hugsanlega fyrsta kona á Íslandi sem brjóstið var ekki tekið af við þessar aðstæður, en fékk fleygskurð. Var ég því skiljanlega mjög fegin, enda ekki nema 32 ára (auk þess fremur brjóstgóð, svo viðbrigðin hefðu orðið ansi mikil að hafa bara annað).
Eiginmaðurinn fyrrverandi flaug síðan aftur út til Tanzaníu, en við tók lyfja- og geislameðferð hjá mér, sem ég kom þó frekar létt út úr, missti t.d. ekki hárið, heldur þynntist það bara aðeins (sást í greiðunni!). Þann tíma dvaldi ég að mestu hjá föðursystur minni Sigrúnu hér í Reykjavík, en drengirnir voru norður á Húsvík hjá tengdaforeldrum mínum mest allan þennan tíma, það er að segja næstu 3 mánuði.
Þá var meðferðinni lokið og við gátum farið aftur til Afríku!
0 Comments:
Post a Comment
<< Home