Bréf frá Tanzaníu

Árin 1983-86 bjó ég í Tanzaníu í Afríku, ásamt þáverandi eiginmanni mínum og tveimur sonum. Fyrir nokkru síðan lét mamma mig fá fullt af bréfum sem ég og eldri strákurinn skrifuðum foreldrum mínum á meðan á dvölinni stóð. Fannst mér mjög fróðlegt og skemmtilegt að lesa þau aftur svona löngu seinna. Ég ákvað þess vegna að skrifa þau upp hér á netinu, sjálfri mér og kannski einhverjum fleirum til fróðleiks og skemmtunar.

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

Ég hef oft verið spurð: "Hvernig var að búa í Afríku?"

Kannski finnið þið eitthvað af svörunum hér. K A R I B U N I ! (Velkomin!)

Flutningsspekúlasjónir

Tabora 19. mars "84
Elsku mamma og pabbi.

Ég ætla að byrja á því að þakka þér fyrir bréfið þitt frá 20. janúar mamma, en ég fékk það 12. mars, svo það er heldur betur búið að vera lengi á leiðinni. Pakkinn til strákanna kom 16. mars daginn eftir afmæli Úlfs, þeir voru auðvitað mjög kátir með gjafirnar og sælgætið og við Kristján að fá blöðin. Daginn eftir kom svo bréf frá Evu dagsett 10. febrúar svo það hefur ekki verið eins lengi á leiðinni og þitt bréf en nógu lengi samt. Þetta stafar sennilega að einhverju leyti af því að það hefur legið niðri hingað allt flug frá því í janúar, Air Tanzania neitar að lenda hér nema flugvöllurinn hér verði lagaður, svo nú sitja þeir sem hafa með málin að gera með hendur í skauti og bíða eftir kraftaverki eða maður gæti ímyndað sér það - Pósturinn kemur með lestinni.

Nú er allt útlit fyrir að við verðum flutt héðan frá Tabora til Moshi og eru það ekki slæm skifti. Ástæðan er sú að háttsettir þingmenn Taborahéraðs lýstu frati á allar ráðagerðir sem Kristján og samstarfsmaður hans Harry Mchome höfðu uppi um kaupfélagsstofnun hér svo nú telja DANIDA-menn ráðlegast að færa hann á annan stað þ.e. til Moshi,sem ætti að vera álitlegra þar sem kaupfélög hafa verið þekkt þar nokkuð lengi. Þetta væri líka mjög gott upp á skólagöngu strákann, þá gætu þeir báðir farið í Moshi International School. Sem stendur kemur hingað kínversk-frönsk-tansanísk (pabbinn er Kínverji fæddur í Tanzaníu mamman er frönsk en uppalin í Kenya) stúlka á morgnana og kennir þeim reikning og ensku í tvo tíma. Það gengur vel svo langt sem það nær, Eysteinn reiknar þó hjá henni sem hann gerði ekki hjá okkur Kristjáni. Svo gluggar hann aðeins í landafræði, Íslandsspgu og náttúrufræði. Gætir þú kannski beðið Guðmund frænda að senda mér þau próf sem 11 ára krakkar hafa tekið í vetur í B.A. [Barnaskóla Akureyrar] mamma?
Það verður víst ákveðið mjög fljótlega hvort af þessu verður, svo það gæti farið svo að við flyttum ca. í maí. Í Moshi væri líka mun auðveldara að heimsækja okkur því þangað er flogið beint frá Evrópu (þó ekki SAS, en KLM (hollenskt) Sabina (belgískt) og e.t.v. Swissair fljúga þangad t.d. en það er nú allt hægt að finna út) og svo er alla vega malbikaður vegur til Dar ef þið flygjuð þangað.
Við leggjum af stað ca. 6. apríl til Mwanza, þar hittum við Ritvu og Hannu Teiskonen og keyrum með þeim gegnum Serengeti til Arusha. Þar er "workshop" eða ráðstefna í viku, svo förum við til Kenya strax á eftir og verðum þar um páskana, síðan heim aftur. Ég læt þetta þá duga í bili, kem þessu á mann sem er að fara heim til Englands. Verið þið svo blessuð og sæl.
Ykkar dóttir
Greta

P.s. Við vitum ekki með homeleave ennþá en ég býst við að við reynum að koma heim hvort sem við fáum það greitt eða ekii, við yrðum þá að reyna að finna ódýrustu leiðina.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home