Bréf frá Tanzaníu

Árin 1983-86 bjó ég í Tanzaníu í Afríku, ásamt þáverandi eiginmanni mínum og tveimur sonum. Fyrir nokkru síðan lét mamma mig fá fullt af bréfum sem ég og eldri strákurinn skrifuðum foreldrum mínum á meðan á dvölinni stóð. Fannst mér mjög fróðlegt og skemmtilegt að lesa þau aftur svona löngu seinna. Ég ákvað þess vegna að skrifa þau upp hér á netinu, sjálfri mér og kannski einhverjum fleirum til fróðleiks og skemmtunar.

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

Ég hef oft verið spurð: "Hvernig var að búa í Afríku?"

Kannski finnið þið eitthvað af svörunum hér. K A R I B U N I ! (Velkomin!)

Aftur í Tabora...


Tabora 17. september

Elsku mamma og pabbi.

Þá erum við nú aftur hingað komin heilu og höldnu. Ferðin gekk á allan hátt vel. Í Kaupm.höfn fórum við á 2 aðalstaðina, þ.e. Magasin de Nord og Tivoli, einnig fórum við í gönguferð eftir Strikinu og borðuðum á ítölskum pizzustað við Ráðhústorgið þar sem Eysteinn fékk bestu pizzu sem hann hefur smakkað og ætlar hann sko þangað aftur þegar hann á næst leið um borgina. En hálf þótti okkur fullorðna fólkinu "púkó" að drekka Coca Cola með ekta ítalskri pizzu en ekki rauðvín [lifrarbólgan!].
Við bjuggum á hóteli nálægt miðborginni þessar 2 nætur, þetta var eiginleg "pensionat" frekar en hótel, ódýrt en gott. Við fengum 1 stórt herberi fyrir okkur 4, ekki seldur matur, nema morgunmatur borinn á herbergin.
Í Dar es Salaam er ekkert mjög heitt núna, fullt eins heitt hér í Tabora. Víð stoppuðum í Dar í tæplega viku hjá Einari og Stínu áður en við fórum "heim" til Tabora. Hér er allt í besta gengi nema hvað lítið gengur með kaupfélagið, þar eru ævinlega ótal ljón á veginum. Mwumvoa er farin að vinna hjá okkur "fulltime" því Nick er fluttur til Iringa að vinna þar.
Strákarnir eru byrjaðir í "mömmuskóla" og gengur bara vel, þó stundum vilji verða dálítill hasar, í morgun fengu þeir a.m.k. "afleit" í hegðun hjá kennaranum, en annars hafa þeir verið furðu stilltir enn sem komið er.
Kristján fór í morgun til Dodoma til að sitja þar fund. Sem stendur eru litlar líkur á að við fáum framlengingu hér í Tanzaníu, fyrir dyrum standa gagngerar breytingar á verkefninu og sennilegt að sá mannskapur sem haldið verður áfram hér verði allt Danir (þ.e. klíka), síðan verði bætt við mönnum úr öðrum atvinnugreinum sem lúta meira að jarðrækt og iðnaði. Svo sennilega komum við heim alkomin næsta sumar, nema Kristján sæki um í e-hv. öðru verkefni, sem hann ætlar að athuga möguleika á og þá helst hjá S.Þ. En svo ætlar hann líka að skrifa Hampiðjunni og Álafoss og athuga möguleika á starfi þar.
Damson var voða ánægður með jakkafötin af pabba, við gáfum honum líka nýjar gallabuxur og skyrtu og spariskyrtu af Úlfi E. sem ekki þótti nógu smart á Íslandi. Alla vega sagði hann við mig að hann liti á Kritján sem föður sinn og sig sem son/barn hans (he is to me like father) og sennilega myndi hann bara deyja (eða fara að gráta? die/cry) þegar við færum aftur til Íslands. Kristján varð nú hálf kindarlegur í framan þegar ég sagði honum frá þessu, fannst þetta víst nokkuð fullorðinn sonur (hann er eitthvað rúmlega tvítugur).
Jæja, nú ætla ég samkvæmt góðri tansanískri hefða að telja upp hvað þig megið kaupa handa okkur í Evrópu; hér kemur listinn:

1. 2ja manna kaffikanna eins og þið eigið (jólagjöf?)
2. Drykkjarrör 1 pk.
3. Brjóstahaldara, hvítan
4. 1 stk. kínverskur penni (fæst í "Blöð og rusl" á Akureyri)
5. 1 tb. UHU-lím.

Þá man ég nú ekki eftir fleiru.

Ég man nú heldur ekki eftir fleiri fréttum í bili. Bestu kveðjur til allra heima.
Ykkar dóttir
Greta

Eysteinn biður afa að senda spritttöflur fyrir gufuvélina ef þær fást.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home