Bréf frá Tanzaníu

Árin 1983-86 bjó ég í Tanzaníu í Afríku, ásamt þáverandi eiginmanni mínum og tveimur sonum. Fyrir nokkru síðan lét mamma mig fá fullt af bréfum sem ég og eldri strákurinn skrifuðum foreldrum mínum á meðan á dvölinni stóð. Fannst mér mjög fróðlegt og skemmtilegt að lesa þau aftur svona löngu seinna. Ég ákvað þess vegna að skrifa þau upp hér á netinu, sjálfri mér og kannski einhverjum fleirum til fróðleiks og skemmtunar.

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

Ég hef oft verið spurð: "Hvernig var að búa í Afríku?"

Kannski finnið þið eitthvað af svörunum hér. K A R I B U N I ! (Velkomin!)

Lífið á Arusha Road, Moshi

Moshi 6. mars "85

Elsku mamma og pabbi!

Af okkur er allt gott að frétta að því undanskildu að Kristján hefur verið hálfslappur lengi og svo var hann að klessa bílinn um daginn (Isuzu trooper [okkar eigin bíll]). En sem betur fer meiddist enginn. Þeir voru tveir í bílnum Kristján og Eysteinn í framsæti við hliðina á honum, ekki í bílbelti og munaði engu að hann lenti með höfuðið í framrúðuna þegar Kristján keyrði á kantstein í beygju á of miklum hraða. Bíllinn er mikið skemmdur, en sem betur fer var hann kaskótryggður hjá Baltica, svo við förum vonandi ekki illa út úr þessu fjárhagslega. En ekki verður keyrt mikið í frí um páskana! Við erum nú helst að hugsa um að fljúga til Kenya og vera þar svona tæplega viku, en hér þykir sjálfsagt að nota öll frí til að skoða sig um. En nú notum við Project-bílinn til að transportera hér innanbæjar.
Hvað varðar heilsufar Kristjáns þá er hann búinn að vera slappur síðan í nóvemberlok. Læknar héldu fyrst að þetta væru eftirstöðvar af hepatitis hann hefði farið sér of geyst. En nú segja læknar hér eftir alls kyns blóð- og úrgangsprófanir að hann sé orðinn algóður af hepatitis. Þetta sé eitthvað annað, en hvað vita þeir ekki, e.t.v. einhvers konar infection. En mér virðist nú samt hann vera mun hressari nú seinustu daga en hann var um það leyti sem við fluttum, svo vonandi fer heilsufarið að verða gott. Hann þarf þó að keyra á fund til Nairobi sem hefur verið boðaður 25. mars og kvíðir fyrir því ef heilsan verður ekki komin í lag.
Ég þakka ykkur kærlega fyrir bréfin; og pakkann til Úlfs, hann verður örugglega kátur að fá bókina 15. mars, hann hlakkar þau býsn til afmælisins og að verða 7 ára. Ég held að hann sé búinn að teja dagana síðan 26. des. þ.e. á Eysteins bróður afmæli.
- Mér virðast drengirnir hinir ánægðustu í skólanum,International School Moshi, líka Eysteinn, sem er mér mikið feginsefni, því þá á þetta örugglega eftir að ganga vel (skólagangan) ef hann "finnur sig" á staðnum. Með Úlf er þetta minna spursmál, hann er ekki nema 5 mínútur að eignast nýja vini og hefur líka mjög gaman af því að læra. Ég held að hann sé alveg að verða læs, hann alla vega les og skrifar allt það sem hann ætlar sér!
Húsið sem við erum í núna hér er ágætt en helst til lítið og þröngt, sérstaklega eldhúsið sem er bara smákompa. (En við fáum annað hús annað hvort í lok maí eða 1. júlí eftir því hvaða hús við tökum). Stofuveggirnir og reyndar svefnherb. okkar Kristjáns og eldhúsið lika eru BLEIKIR, en mér til nokkurs áhyggjuefnis þá er ég farin að kunna því "ekki illa" (þó ekki vel). En hvernig verður litasmekkurinn orðinn eftir dvölina hér, algjörlega afrikaniseraður? (bleikt, sægrænt, gult, grátt ljósblátt er algengast í húsamálun hér!).
Við erum búin að ráða okkur "garðstrák", hann er nautheimskur greyið og fekar latur sýnist mér. Um daginn bað hann Kristján um að kenna sér á bíl og síðan ætlar hann að fá bílinn í vinnulaun, þá má hann vinna hjá okkur nokkuð mörg ár, því kaup hér í landi er ekki hátt. Síðan hefur hann sagt okkur að pósta handa sér "prize" (present) þegar við förum til Evrópu aftur (þetta var 3 dögum eftir að hann var ráðinn!). Það má vera annað hvort myndavél, eða útvarps og kasettutæki, and don´t forget. And also to ask bwana to buy me shoesi and clothes, don´t forget.
Við höfum ekki ráðið vinnukonu enn, ég er þó farin að þrá það þegar ég stend kófsveitt í keng yfir baðkarinu að þvo þvottinn. Hér er mun heitara en í Tabora, svo maður svitnar mikið og þarf að skifta oft um föt og rúmföt, og einhvern veginn skitnar hér meira en í British Compound í Tabora sem e.t.v. skýrist af því að við búum sem stendur við mestu umferðargötu í Moshi sem er Arusha road og svo er jarðvegur hér dekkri (brúnn) en í Tabora (rauð- og gráleitur).
Í hverfinu hér fyrir neðan er víst mikið um þjófapakk svo við höfum garðhliðið læst alla daga og nætur. Á nóttunni höfum við 2 varðmenn (askari) sem skiftast á um að halda vörð 3 nætur í
senn hvor.
Við húsið hér er nokkuð stór garður með allskyns fallegum gróðri rósum o.fl. sem ég kann ekki að nefna. Eitt kann ég þó að nefna uppá íslensku sem er stór runni af "Hawairós" alþakinn blómum og knúppum, og fleiri plöntur sér maður hér í görðum sem aðeins finnast sem stofublóm heima á Íslandi.
Nú fer bráðum að dimma, en þetta er al-fallegasti tíminn hér í Afríku finnst mér, í ljósaskiftunum. Ég sit hér úti á smáverönd framan við húsið við skriftir, klukkan er tæplega 7. Askarinn Alexander var að mæta til vinnu og bíður brosmildur gott kvöld, þetta er geðþekkur ungur maður, við sofum vel inni í húsinu vitandi af honum á vakt. Kristján var að keyra af stað og Eysteinn með honum að ná í Úlf til Helle vinkonu sinnar, hún er 5 ára, dönsk og flytur heim í maí. Ég slæ þá botn í bréfið að sinni og fer inn að ná í umslag. Bestu kveðjur til allra heima.
Ykkar dóttir Greta.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home