Af matargerð
Tabora 9. febrúar
Elsku mamma og pabbi.Af okkur er allt gott að frétta. Við höfum það öll mjög gott. Það er helst að hrjái okkur póst- og fréttaleysi frá Íslandi. Við höfum fengið 4 bréf það sem af er árinu. Í öllum er tíundað óveðrið sem kom eftir áramótin, Eysteinn og Dudda sendu okkur nokkur dagblöð (og Andrésblöð!) þar sem mest kom okkur á óvart hið sorglega andlát Dorriet Kavannah [var gift Kristjáni Jóhanssyni, tenór].
- Hér hafa rigningar mikið minnkað og rignir þá helst á nóttunni, óspart farið í laugina og sólað sig þegar heiðskýrt er, og svo reyni ég nú líka að synda dálítið til þess að fá hreyfingu og strákarnir busla af hjartans lyst svo gusurnar ganga yfir mann flatmagandi á bakkanum.
Við förum sennilega öll til Mwanza í næstu viku í 5-6 daga. Það á að vera fundur þar fyrir Nordic-Project starfsmenn í Norður- og Vestur-Tanzaníu, svo þarna verður fullt af fólki sem ég hef ekki séð síðan á námskeiðinu í Danmörku. Það verður gaman að hitta það aftur og auk þess að sjá meira af landinu en það er víst mjög fallegt þarna.
S.l. föstudag komu í heimsókn til mín tvær indverskar vinkonur mínar (eiginkona og systir eiganda verkstæðisins þar sem Kristján fær gert við bílinn). Við vorum búin að fara heim til þeirra í mat í vikunni áður. Á föstudaginn kom þær kl. 10.30 með fullt af matvöru með sér, ég lagði svo til það sem ég átti hér heima og svo elduðum við Mince-curry og Maís-kókos-curry að indverskum hætti. Svo komu Kristján og Arif og bróðir hans Asif heim í mat og borðuðu, þetta var mjög skemmtilegt (þær heita Meenaz og Shabnam). Ég var síðan alveg fram á mánudag að borða maísréttinn, þær elduðu svo mikið og skildu svo allt eftir hér, ég er líka "alveg vitlaus" í þennan rétt, borðaði yfir mig af honum í þrjá dag í röð, því strákarnir vildu þetta ekki (of sterkt!) og Kristján fékk nóg á föstudaginn.
Í gærkvöldi bjó ég aftur til Mince-curry (hakkrétt). Svo ætla þær að kenna mér að gera fleiri rétti seinna, en indverskur matur finnst mér æðislega góður eins og þið sjáið. Í staðinn á ég svo að kenna þeim að búa til sætar kökur og gerbrauð.
Ég hætti núna, Kristján kom heim og er svo að fara aftur inn í bæ og setur þetta í póst í leiðinni. Vona að allir hafi það gott heima og bið að heilsa öllum. Bless, bless.
Ykkar dóttir
Greta
Greta
0 Comments:
Post a Comment
<< Home