Bréf frá Tanzaníu

Árin 1983-86 bjó ég í Tanzaníu í Afríku, ásamt þáverandi eiginmanni mínum og tveimur sonum. Fyrir nokkru síðan lét mamma mig fá fullt af bréfum sem ég og eldri strákurinn skrifuðum foreldrum mínum á meðan á dvölinni stóð. Fannst mér mjög fróðlegt og skemmtilegt að lesa þau aftur svona löngu seinna. Ég ákvað þess vegna að skrifa þau upp hér á netinu, sjálfri mér og kannski einhverjum fleirum til fróðleiks og skemmtunar.

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

Ég hef oft verið spurð: "Hvernig var að búa í Afríku?"

Kannski finnið þið eitthvað af svörunum hér. K A R I B U N I ! (Velkomin!)

Fyrsta bréfið


Dar es Salaam, 23. júní, ´83



Elsku mamma og pabbi.
Við búum hér á Bahari Beach Hotel í góðu yfirlæti. Þetta er besta hótelið í Dar og hægt að lifa hér sannkölluðu letilífi. Hitinn er u.þ.b. 25°C en alltaf hressandi vindur af hafi, hrein, hvít baðströnd hér beint fyrir neðan (og ekki krökk af fólki maður hefur nóg pláss!) sett vaggandi pálmatrjám, strákarnir eru aldeilis hrifnir af því að busla í öldunum. Svo er hér líka sundlaug þar sem gott er að fá sér dýfu og leggjast síðan í sólbað á bakkann. Maturinn hér er mjög góður og starfsfólkið vingjarnlegt. Góður fiskur, alls kyns grænmeti og ferskir ávextir í eftirmat. Í gærkvöldi fengum við einn besta mat sem ég hef fengið, kjúklinga í kókósmjólkursósu, og með því suðubanana, yams, baunir, hrísgrjón og ýmislegt fleira, ég gat ekki smakkað á því öllu því ég var orðin svo pakksödd. Eftir matinn kom svo dansflokkur og sýndi þjóðlega og þjóðernislega dansa og söng, hljóðfæraflokkur spilaði undir á marimba (e.k. xylofónn eingöngu úr tré) og trommur. Þetta var mjög skemmtilegt og hrífandi. Allt saman ungt fólk brosandi út að eyrum sem dansaði og söng af hjartans list.

Ég er búin að fara einu sinni til Dar, en hótelið er 45 km utan við borgina. Þegar við komum sáum við ekki mikið því það var orðið koldimmt, en samt leist mér strax vel á það sem ég sá, þótt flugstöðin sé ekki sú flottasta í heimi. Við lentum kl. 11.30 að staðartíma (3 klst. á undan ísl. tíma) þá höfðum við millilent í Aþenu (1/2 klst.) þar sem við fórum út, og í Jeddah í Saudi-Arabíu (45 mín.) en þar mátti enginn hreyfa sig út úr vélinni, allt áfengi var læst inni og farþegum ráðið til að fela allar áfengisflöskur, annars eru þær gerðar upptækar af "hreingerningarliði" sem kemur um borð. En áfram með smjörið. Kristján tók á móti okkur á flugvellinum en síðan tók u.þ.b. klukkustund að láta skoða pappíra og fá stimpla, þeir eru ekki mjög fljótir að svoleiðis og við þurftum að standa í heilmikilli biðröð. Síðan keyrðum við hingað á Land Rover skrifli sem projectið á og hann er með í láni. Morguninn eftir fórum við í sjóinn og síðan inn til
Dar, sem er ekkert mjög stórborgarleg þótt þetta sé stærsta borg í landinu. En við eigum eftir að fara aftur og skoða betur. Eitt sniðugt skeði: Kristján fór í banka og á meðan vorum við að skoða varning sem götusalar voru með fyrir utan, útskorna muni úr tré og fílabeini. Ég keypti hatta á báða strákana í Tivoli (við fórum 2svar í Tivoli, 1 sinni í Dýragarðinn [stoppuðum í Kaupmannahöfn í 3 daga á leiðinni út]) og einn götusalann ungan strák langaði svo mikið að eignast svona hatt; en Eysteinn var með sinn á sér, og bauð í skiftum útskorinn fíl en strákarnir eru voða hrifnir af þessum fígúrum. Þið hefðuð átt að sjá andlitið á stráknum og hvernig hann hoppaði á gangstéttinni þegar við ákváðum að ganga að þessu. Svo nú gengur hann vafalaust um voða fínn í Dar með Tivoli hatt á höfðinu!
Já, svo ég segi ykkur líka frá Kaupmannahafnar dvölinni þá var það mjög skemmtilegt. Við vorum svo heppin með veður. Það var hitabylgja og 20-24°hiti alla dagana. Við fórum 2svar í Tivoli, ég keypti svokallað Tur-pas fyrir strákana, armband með merki sem gildir fyrir allan daginn í öll tæki eins oft og hver vill, svo þeir gátu þeyst á milli tækja að vild og skemmtu sér konunglega.
Við erum búin að fá hús í Tabora, Kristján er búinn að skoða það og sofa þar í 3 nætur, hann segir að það sé mjög gott. Þetta er í "compound" með 8-10 öðrum húsum sem breskt project á og þarna er sundlaug fyrir öll húsin og sameiginlegir verðir, sem eru alla vega sumir búnir að vera í nokkur ár og þarna hefur aldrei verið brotist inn. Breskt fólk sem Kristján hitti og borðaði hjá og býr þarna (maðurinn er yfirm. v. projectið) er með kokk sem er að leysa þeirra kokk af í 2 mánuði, síðan getum við kannski fengið hann þegar þeirra kokkur kemur aftur og ef þessi reynist vel. Hjá þeim eldar kokkurinn morgun- og hádegismat og annast daglega hreingerningu, síðan er kona sem gengur milli húsanna og gerir hreint og þvær þvott. En nóg um það. Ég ætla að senda með rissmynd sem Kristján gerði af húsinu.
Ég ætla þá að slá botn í þetta að sinni. Ástarkveðjur til allra heima, vona að allir hafi það sem best; og að sumarið fari nú að koma á Íslandi. Bless, bless.
Ykkar dóttir,
Greta

P.S. Ég veit ekki hvenær við komumst uppeftir. Það liggur niðri flug til Tabora. Þannig stendur á því að brunabíllinn á flugvellinum þar er bilaður. Varahlutir í hann eru á vörubíl sem er stopp í Dodoma vegna þess að það er "hamna diesel" (ekki til) í landinu. So there you are! Einn af Svíunum er strand hér á hótelinu af sömu ástæðu, hann er á dieselbíl. En það gerir svo sem ekkert til að þurfa að bíða hér því DANIDA borgar uppihaldið, annars væri þetta sjálfsagt dýrt. En kannski komumst við til Tabora með því að fljúga til Mwanza eða Dodoma og láta síðan ná í okkur á bíl eða fara með lest, það kemur í ljós.
Ég sá þegar ég skoðaði farseðilinn minn að farið mitt hefur kostað u.þ.b. 30.000 ísl. kr. þ.e. Akureyri-Kbh-Dar es Salaam, það er á economy class.
Bless aftur
Greta

0 Comments:

Post a Comment

<< Home