Bréf frá Tanzaníu

Árin 1983-86 bjó ég í Tanzaníu í Afríku, ásamt þáverandi eiginmanni mínum og tveimur sonum. Fyrir nokkru síðan lét mamma mig fá fullt af bréfum sem ég og eldri strákurinn skrifuðum foreldrum mínum á meðan á dvölinni stóð. Fannst mér mjög fróðlegt og skemmtilegt að lesa þau aftur svona löngu seinna. Ég ákvað þess vegna að skrifa þau upp hér á netinu, sjálfri mér og kannski einhverjum fleirum til fróðleiks og skemmtunar.

My Photo
Name:
Location: Reykjavík, Iceland

...hvað er bak við yztu sjónarrönd?

Ég hef oft verið spurð: "Hvernig var að búa í Afríku?"

Kannski finnið þið eitthvað af svörunum hér. K A R I B U N I ! (Velkomin!)

Jól í Tabora

Tabora, 30. desember

Elsku mamma og pabbi.
Þá ætla ég loksins að drífa mig í að skrifa ykkur. Ég er búin að hafa heilmikið að gera síðan ég kom. Eins og þið vissuð kom Justesen pöntunin og sjófarangurinn viku áður en við fórum út, svo hér beið mín heilmikið verk að pakka upp og koma í lag þegar ég kom hingað. Auk þess dreif ég mig í að mála stofuna og sauma nýjar gardínur fyrir gluggana svo nú er hér bara orðið ansi huggulegt. Svo þurfti nú líka að undirbúa jólin svolítið, þótt sá undirbúningur þætti nú kannski ekki stórkostlegur á íslenskan mælikvarða. Okkur tókst að fá fallegt jólatré. Það er ekki barrtré, þótt það sé sviað á vöxt, ég veit ekki hvað það heitir, en svona greinar eru stundum seldar heima fyrir jól, þetta er mjög fíngert og fallegt, ég held bara að þetta sé fallegasta jólatré sem við höfum haft. Við höfðum jólaseríu með okkur, Heiða sendi mér jólahjörtu sem bara þurfti að flétta og svo bjó ég til rauðar og gylltar "kínverskar luktir" eins og við bjuggum til í gamla daga á Klaustri. Svo bakaði ég piparkökuhjörtu og hengdi á tréð, þetta er svo fallegt. Auk þess höfum við í glugganum "gyðingaljósið" frá ykkur. Ég keypti líka "jólajötufígúrur" úr svörtum leir og bjó til jötu með stráþaki. Síðan borðuðum við hangikjöt og ís á eftir á aðfangadagskvöld, þetta var svo hátíðlegt og jólalegt þótt ekki væri snjór, enda var enginn snjór í Betlehem fyrir tæplega 2000 árum eða hvað.
Ég var búin að fá bréf frá Heiðu fyrir jól og eins kort frá Lillu og Ella og Lísu. Ég fékk svo bréf frá Evu í gær, svo kannski fer pósturinn að smá tínast til okkar. Þeir eru víst ekki alltaf að flýta sér að sortera póstinn á pósthúsinu segir Kristján, en hefur komið þar "á bak við" og séð sömu pokana liggja óhreyfða eina 2 daga, 3ja daginn var búið að opna þá.
Ekki hefur nú farið mikið fyrir skólagöngu hjá strákunum ennþá og eru þeir víst fegnir, það skal þó takast fastari tökum eftir áramót. Úlfur hefur verið að stafa svolítið, var voða spenntur fyrst en voða fljótur að dofna áhuginn, honum gengur illa að muna samhljóðana.
Við komum við í Ndala þegar við komum og létum dr. Laduc hafa bréfið frá Kjartani. Hann er síðan búinn að athuga með rannsóknir sem hann bað um í Nairobi, en það er hægt að fá þær allar þar nema beinaskann. Dr. Laduc telur það þó allt í lagi að gera það ekki fyrr en eftir ca. 1/2-1 ár ef ég færi þá heim í þetta. Það er verið að berjast fyrir því núna að allir í verkefninu fái "home leave" einu sinni á samningstímanum svo hugsanlega komum við heim í frí næsta sumar og þá yrði þetta allt í lagi. En Laduc bað mig að skrifa Kjartani um þetta hvað ég gerð og fá hans álit hvort þetta mætti frestast, svo ég bíð eftir hans svari.
Ég hef verið að láta mér detta í hug ef við kæmum heim næsta sumar , hvort ekki væri upplagt að þið yrður okkur svo samferða út aftur í heimsókn til okkar?
Hér hefur rignt allan desember (meira og minna) flesta daga, regnið er mánuði seinna á feðinni núna en venjulega, sem kemur sér illa fyrir ræktunina (maís), nú vonast menn til að rigni út janúar (tóbak). Síðan á að rigna aftur í mars (vonandi). Regninu fylgja oftast þrumur og eldingar. Eitt kvöld stuttu eftir að við komum hingað kom æðislegt þrumveður sem stóð allt kvöldið. Eldingarnar lýstu upp eins og umbjartan dag með grænni og fjólublárri birtu, það var flott! Eysteini fannst þetta ofsaspennandi en Úlfur var hálfhræddur svo ég mátti sitja og lesa Andrés Önd fyrir hann og reyna að yfirgnæfa þrumurnar og regnið!
Hér ganga nú um fullt af Tansönum í fötum af Ragnarson og Eysteinssonfjölskyldunum. Damson garðyrkjumaður fékk Spánarskyrtuna hans pabba í jólagjöf og mér sýnist hann hinn ánægðasti í henni. Mwumvoa er búin að fá tvo kjóla af mömmu, ég hef ekki séð hana í þeim, kannski eru þeir of þröngir eða hún tímir ekki að vinna í þeim. Hún er sérstaklega dugleg og vandvirk, sama verður ekki sagt um Mömu Pili hún er óttaleg subba og sein að vinna og heldur tóm í kollinum, svo er hún alltaf að sníkja og kvabba, hún má ekki sjá saumsprettu á brók svo hún vilji ekki fá að eiga hana, svo við ætlum að segja ehnni upp um áramótin og reyna að fá aðra betri.
Nú voru Kristján og strákarnir að koma úr árangurslausum kók- og póstleiðangri, ekki var heldur búið að gera við Land Roverinn.
Hér eru spilaðar plötur alla daga allan daginn síðan "græjurnar" komu, það er þó ekki mjög fjörugt þessa stundina, útfararmars eftir Chopin (sonata nr. 2! Jæja, best að hætta þessu rausi og slá botn i þetta.
Við óskum ykkur gleðilegs nýárs og þökkum kærlega öll liðnu árin. Vonum að ykkur líði alltaf sem best og biðjum að heilsa öllum vinum og vandamönnum.
Kærar kveðjur
frá ykkar dóttur
Gretu

0 Comments:

Post a Comment

<< Home